„Einar Sigurðsson kom til fundar við Sigurjón og samdi við hann um að gera brjóstmynd af sér. Svo leiddi eitt af öðru og á næstu árum gerði Sigurjón alls um tuttugu myndir fyrir Einar, þar af sautján af honum og fjölskyldu hans. Einu tekjur Sigurjóns svo misserum skipti voru fyrir verkefni á vegum útvegsbóndans í Vestmannaeyjum. Það segir sína sögu að ég minnist þess að einu sinni á aðventunni spurði Sigurjón sjálfan sig upp úr eins manns hljóði: Skyldi Einar borga fyrir jólin? Þá stundina var þröngt í búi eins og stundum áður.“
Birgitta Spur, ekkja Sigurjóns Ólafssonar myndhöggvara, lítur um öxl í tilefni af sýningu sem opnuð hefur verið í Listasafni Sigurjóns Ólafssonar á Laugarnestanga í Reykjavík og stendur yfir til 27. ágúst. Sýndar eru allir skúlptúrarnir sem Sigurjón gerði af fjölskyldu Einars ríka, flestir frá 1963 og 1964. Þetta eru brjóstmyndir, standandi myndir og sitjandi myndir af Einari sjálfum, Svövu Ágústsdóttur, eiginkonu hans, og af Sigurði Sigurfinnssyni, útvegsbónda í Eyjum og föður Einars. Þá eru þarna vangamyndir af tíu börnum Svövu og Einars. Þau eignuðust ellefu börn á árunum 1948 til 1964 en eitt þeirra lést skömmu eftir fæðingu 1955.
Aðalsteinn Ingólfsson listfræðingur efast um að önnur dæmi séu um það um veröld víða að stórfjölskylda sé mótuð í skúlptúr. Hann veit til þess að erlendir efnamenn hafi látið mála myndir af fjölskyldum sínum á striga. Hér tölum við hins vegar um stórfjölskyldu mótaða í leir, gifs og brons!
Athyglisverð grein og viðtal eftir Atla Rúnar Halldórsson í nýjasta blaði Eyjafrétta.
Mynd Atli Rúnar:
Myndin Barnakarlinn er af Einari sitjandi með Auði dóttur sína í fanginu, gerð árið 1964. Á veggnum eru vangamyndir af tíu börnum Svövu og Einars í aldursröð frá vinstri. Ellefta barnið, Einar Björn, lést skömmu eftir fæðingu 1955. Systkinin tíu eru frá vinstri (fæðingarár í sviga): Guðríður hjúkrunarfræðingur (1948), Elísabet meinatæknir (1949), Sigurður útgerðarmaður (f. 1950-d. 2000), Ágúst prófessor (1952), Svava kennari (1953), Ólöf prófessor (1956), Helga meinatæknir (1958), Sólveig kennari (1959), Auður íslensku- og viðskiptafræðingur (1962) og Elín kennari (1964).
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst