Eftir 13 ár er nú komið að tímamótum. Veitingastaðurinn Slippurinn í Vestmannaeyjum mun ljúka sínu síðasta tímabili næsta sumar. Síðustu ár hefur Slippurinn verið leiðandi á sviði íslenskrar matargerðar með áherslu á náttúru, árstíðabundna matargerð og sjálfbærni. Þetta kemur fram í tilkynningu.
„Þegar við stofnuðum Slippurinn árið 2012 höfðum við ekki hugmynd um hversu mikil áhrif hann myndi hafa á líf okkar og feril,“ segir Gísli Matt, yfirkokkur og eigandi.
„Það hefur verið ótrúlegt að vinna með fjölskyldu minni, dásamlegum samstarfsmönnum og heimafólki í Vestmannaeyjum. Við erum óendanlega þakklát og horfum bjartsýn til okkar síðasta tímabils – sem við stefnum að því að gera það besta til þessa.“
„Ástæða lokunarinnar er sú að við trúum því að allt gott taki enda. Foreldrar mínir eru ekki að verða yngri, og ég finn að við höfum náð ákveðnum áfangapunkti með Slippinn – stað þar sem við höfum gert allt sem við getum gert. Nú er rétti tíminn til að staldra við, líta yfir farinn veg og horfa fram á við.
Ég er þó hvergi nærri hættur og upplifi mig frekar sem nýbyrjaðan. Ég opnaði Slippinn þegar ég var aðeins 23 ára, og allt mitt líf hefur mótast í kringum veitingastaðinn. Fyrir það er ég óendanlega þakklátur. Þó svo að ég sé að vissu leyti sorgmæddur að þessu sé að ljúka þá er ég líka spenntur fyrir framtíðinni og fleiri verkefnum.“
Við hvetjum gesti til að koma og upplifa Slippurinn í síðasta sinn næsta sumar – og fagna því sem staðurinn hefur skapað á þessum 13 árum. Bókanir eru nú opnar í gegnum vefsíðu okkar www.slippurinn.com. Við munum deila minningum, reynslu og gleði í gegnum sérstakt kveðjuvídjó sem gefið verður út á samfélagsmiðlum, segir jafnframt í tilkynningunni.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst