Í tilefni að hljómsveitinni Moldu var boðið að spila í Færeyjum nk. laugardag verða haldnir upphitunartónleikar í samstarfi við The Brothers Brewery á ölstofunni í kvöld, miðvikudaginn 30. ágúst. Enginn aðgangseyrir er á tónleikana en opið verður fyrir frjálsum framlögum. Tónleikarnir hefjast klukkan níu. Tveir meðlimir hljómsveitarinnar, frændurnir Helgi og Albert, eru báðir ættaðir frá Fuglafirði í Færeyjum þar sem Molda mun spila á bæjarhátíðinni Menningardagar.
Gefa út lag í haust
„Það er búið að vera mjög annríkt ár hjá okkur. Bara verkefni eftir verkefni eftir verkefni” segir Helgi Tórshamar, aðalgítarleikari hljómsveitarinnar í samtali við Eyjafréttir. Árið byrjaði með því að Moldamenn gáfu út tónlistarmyndband við ábreiðu af Álfareiðinni sem sló í gegn og í kjölfarið af því voru þeir ráðnir í Rocky Horror. Þeir spiluðu undir hjá Karlakór Vestmannaeyja á vortónleikunum þeirra í maí, hituðu upp fyrir Skonrokk í byrjun sumars og spiluðu á Skipasandi á goslokum.
„Svo bættist þetta allt í einu við og kom bara svona upp í hendurnar á okkur. Það er búið að vera markmiðið hjá Molda að geta farið til Færeyja að spila bæði út af tengslum hjá mér og svo er Albert náttúrulega líka Færeyingur. Við höfum mikið talað um að fara en það hefur aldrei orðið neitt úr því. Ég náði mér í tengilið þarna í Fuglafirði sem er náfrændi minn og svo bara stuttu eftir Þjóðhátíð var giggið komið með þessum stutta fyrirvara.”
Í Eyjum fyrir 85 árum
„Fuglafjörður er ein helsta löndunaræð í Atlantshafinu. Það er bara ein bræðsla þarna og þarna landa íslensku uppsjávarskipin og þá mikið frá Vestmannaeyjum. Þannig að það er oft mikið af Vestmannaeyingum sem eru þarna og þekkja til” segir Helgi.
Tónleikarnir á laugardaginn fara fram á gömlu skipsflaki sem liggur í fjörunni í firðinum. Flakið er af skipinu Kyrjasteini sem var á vertíð í Eyjum veturinn 1938 í samvinnu við Eggert Jónsson. Kyrjasteinur landaði oft í Eyjum og á Seyðisfirði, en amma Helga og Alberts var einmitt frá Seyðisfirði sem gerir tenginguna við flakið ennþá nánari.
„Á þessum tónleikum verða fjórir aðrir artistar fyrir utan okkur. Það verður til dæmis eitt mjög þekkt færeyskt 80s band þarna sem heitir Tinganes. Síðan munum við flytja allt okkar á íslensku en Færeyingar eru mjög hrifnir af íslenskri músík.”
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst