Í gær var haldinn borgarafundur um samgöngur milli lands og Eyja. Á meðan frummælendur fóru yfir nýtingu Landeyjahafnar og vangaveltur um hvað mögulega væri hægt að gera rifjuðust upp fyrir mér nokkur ummæli m.a. forvera þeirra sem töluðu. Loforð um bót og betrun.
Brostin loforð
Undirritaður nýtti því tímann á fundinum í að goggla þessu fögru fyrirheit ráðamanna. Ég skynjaði nefnilega talsvert mikla þreytu hjá fundarmönnum í sal á þessu ástandi sem varað hefur nú í tæp 14 ár, og ekkert sem bendir til að það sé að breytast.
Sögur sem ómuðu í eyru mér um að fólk hafi farið hér í fjárfestingar, jafnvel upp á hundruði milljóna vegna þess að handan við hornið væri nýtt skip og 90% nýting á nýrri höfn. Raunin er víðsfjarri þessum loforðum. Skoðum örfá dæmi um það sem haldið hefur verið að Eyjamönnum í þessum málum í gegnum tíðina.
Landeyjahöfn var því byggð þar sem saman fer til lengri tíma mesta skjólið og minnsti sandburðurinn
Ári eftir að höfnin opnaði, s.s. árið 2011 sendi Siglingamálastofnun frá sér tilkynningu þar sem m.a. kom fram að ströndin við ósa Markarfljóts sé á stöðugri hreyfingu þar sem óseyrar ganga fram eða hopa eftir mismiklum framburði fljótsins eftir árum. Loftmyndir sem til eru aftur til ársins 1954 sýna ekki merkjanlegar breytingar á staðsetningu Bakkafjöru þar sem Landeyjarhöfn er.
Landeyjahöfn var því byggð þar sem saman fer til lengri tíma mesta skjólið og minnsti sandburðurinn, sagði í greininni. Í lok greinarinnar segir:
,,Gera má ráð fyrir að siglingar í höfnina verði óáreiðanlegar þar til síðari hluti þessarar samgönguframkvæmdar verður lokið með skipi sem hentar aðstæðum. “
Hafa fulla trú á Landeyjahöfn sem heilsárshöfn þegar ný ferja verður tekin í notkun
Árið 2013 sendu Ögmundur Jónasson, þáverandi innanríkisráðherra og Hreinn Haraldsson, þáverandi vegamálastjóri frá sér áréttingu vegna umfjöllunar Kastljóss um Herjólf og Landeyjahöfn þar sem fram kom að þeir hafi fulla trú á Landeyjahöfn sem heilsárshöfn með öruggum siglingum milli lands og Eyja þegar ný ferja verður tekin í notkun.
,,Við viljum strax koma því rækilega til skila að við höfum fulla trú á Landeyjahöfn sem heilsárshöfn með öruggum siglingum milli lands og Eyja um leið og ný sérhönnuð ferja verður tekin í notkun.”
Landeyjahöfn verður heilsárshöfn þegar ný, hentug ferja kemur
Í október árið 2015 sendu Sigurður Áss Grétarsson hjá Vegagerðinni og Andrés Þ. Sigurðsson, nefndarmaður í smíðanefnd nýrrar ferju frá sér yfirlýsingu þar sem sagði í niðurlaginu:
,,Ástæða er til að taka skýrt fram að sú ferja sem nú er verið að leggja lokahönd á getur auðveldlega siglt til Þorlákshafnar með fleiri farþega og mun fleiri bíla. Rannsóknir sýna að nýja ferjan er betra sjóskip en Herjólfur. Erfiðleikar við Landeyjahöfn felast í tvennu, að útreikningar danskra sérfræðinga á sandburði voru vanáætlaðir og ekki hefur enn verið smíðuð ferja sem hentar Landeyjahöfn. Landeyjahöfn verður heilsárshöfn þegar ný, hentug ferja kemur. Að tryggja nægt dýpi fyrir nýrri ferju verður erfitt en viðráðanlegt.“
Ósanngjarn samanburður
Þetta var árið 2015. Árið 2019 kom loks ný ferja. Vissulega fjölgaði dögunum eitthvað sem hægt var að sigla í Landeyjahöfn. Þó verður að halda til haga að þegar Herjólfur III var í rekstri var oft á tíðum ekki verið að dýpka yfir veturinn í höfninni og var Landeyjahöfn hreinlega lokað í nokkra mánuði yfir háveturinn. Því er ósanngjarnt að bera saman nýtingu hafnarinnar eftir ferjum.
En aftur að deginum í dag. Í sumar verða fimm ár síðan nýi Herjólfur hóf siglingar. Óhætt er að fullyrða að nýting hafnarinnar sé langt frá því að vera ásættanleg.
Við þurfum heilsárshöfn – líkt og okkur var lofað
Og það sem verra er – er að engar markvissar aðgerðir eru í gangi til þess að nýtingin verði eins og allir þessir ráðamenn hafa lofað! Það að halda því að okkur að nýtingin sé um 80% dugar ekki. Það er vegna þess að yfir sumartímann er höfnin að skila sínu og nýtingin sjálfsagt í kringum 97%. Það sem gerist svo á haustin er að frátafirnar byrja og um leið og þær byrja hætta ferðaskrifstofur að senda hópa til Eyja. Nýtingin dettur niður í 60-70% og þjónustufyrirtæki neyðast til að loka. Þannig er staðan í hálft ár á hverju ári.
Útgangspunkturinn er því þessi: Við þurfum heilsárshöfn – líkt og okkur var lofað!
Tryggvi Már Sæmundsson
Höfundur er ritstjóri Eyjar.net
Síðasta grein eftir höfund:
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst