Tidy Rodriguers stórsöngkona frá Grænhöfðaeyjum og málþing um Surtsey verða meðal hápunkta á safnahelginni 31. október til 3. nóvember nk. Í ár eru 20 ár frá því að safnahelgin var fyrst haldin í Eyjum.
Það stendur mikið til á þessari 20. safnahelgi. Hátíðin hefst að vanda í Stafkirkjunni síðdegis á fimmtudeginum og í framhaldinu opnar Bjarni Ólafur Magnússon málverkasýningu í anddyri Safnahússins.
Við erum afar stolt af því að vera að fá til landsins stórsöngkonuna Tidy Rodrigues frá Grænhöfðaeyjum. Hún mun koma fram á sérstakri Grænhöfðaeyjadagskrá í Eldheimum laugardagskvöldið 2. nóvember og syngja ásamt hjómsveit margar af fegurstu söngperlum Grænhöfðaeyja, jafnframt verður kynning á þessum framandi eyjum sem allt of fáir þekkja.
Á föstudeginum 1. nóvember verður mjög áhugavert málþing um Surtsey í Eldheimum. Þar fjalla tveir fróðir og áhugaverðir vísindamenn, þeir Borgþór Magnússon náttúru- og plöntuvistfræðingur og Bjarni Diðrik Sigurðsson líf- og vistkerfafræðingur um þróun og framtíð Surtseyjar, sem þeir hafa rannsakað um áratuga skeið. Inga Dóra Hrólfsdóttir sviðsstjóri náttúruverndar hjá Umhverfisstofnun og Einar E. Sæmundsson þjóðgarðsvörður á Þingvöllum segja svo frá virði heimsminjaskráningarinnar UNESCO.
Einnig verða sýndar nýjar ljósmyndir, sem og stutt heimildarmynd frá vísindaleiðangri sl. sumars til Surtseyjar. Það er svo komin hefð fyrir því að kynna nokkrar nýjar bækur, það skýrist fljótlega hverjar þær verða í ár, segir í tilkynningu frá skipuleggjendum.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst