Kiwanisklúbburinn Helgafell hefur undanfarna mánuði styrkt börn sem æfa íþróttir undir merkjum ÍBV og þurfa á gleraugum að halda. Verkefnið virkar þannig að foreldrar, eða forráðamenn barnanna, fylla út umsóknareyðublað á skrifstofu ÍBV-íþróttafélags. Viðkomandi kaupa svo sérstök íþróttagleraugu við hæfi fyrir barnið, en Helgafell greiðir 25 þúsund krónur af kostnaðarverði. Ekki er um að ræða beinan peningastyrk, heldur greiðir Helgafell styrkinn beint til gleraugnafyrirtækjanna Plús/mínus og Sjón og því lækkar kostnaður foreldranna sem því nemur.