Nú liggur fyrir að nefnd, sem skoða á möguleikann á göngum milli lands og Eyja, er að skila af sér. En mér finnst dapurlegt að lesa, og þá sérstaklega greinar eftir frambjóðendur sem setið hafa í ríkisstjórnarmeirihluta sl. 7 ár og eru í flokkum, sem m.a. hafa haft undir höndum innviðarráðuneytið og ætla núna, rétt fyrir kosningar að fara að lofa göngum. Ekki mjög trúverðugt, að maður tali nú ekki um þá staðreynd að í sumum tilvikum eru þetta flokkar sem hugsanlega eru ekki að ná manni á þing.
En hvernig er samanburðurinn við frændur okkar í Færeyjum?
Nú liggur fyrir að hafinn er undirbúningur að því að gera göng milli Sandeyjar og Suðureyjar, eða 22,8 km löng og er áætlað að göngin þurfi að fara niður á 180 m dýpi og muni kosta einhverstaðar á milli 80-100 milljarða íslenskra króna, en í Suðurey búa ekki nema innan við 5000 manns, eða svipað og hér í Eyjum, en í dag er Suðurey þjónustuð af ferjunni Smyril sem fer 2-3 ferðir á dag milli Suðureyjar og Tórshavn, en vegalengdin er svipuð og á milli Vestmannaeyja og Þorlákshafna, en Smyril gengur liðlega 20 mílur. Vegalengdin á milli Heimaeyjar og lands er ca. 18 km og myndi því göng að öllum líkindum kosta einhverstaðar á milli 60 og 70 millarða, en það er enginn vafi á því að þau myndu borga sig upp á nokkrum árum eða áratugum.
Svolítið sérstakt að hugsa til þess að frændur okkar í Færeyjum með aðeins liðlega 50 þúsund íbúa skuli fara létt með það að gera hver göngin á eftir öðrum og fjármagna það sjálfir, á meðan hér gerist eiginlega ekki neitt en samt erum við ca. 8 sinnum fleiri heldur en Færeyingar.
Ég ætla því að nota þetta tækifæri og skora hér með á frambjóðendur í suðurkjördæmi að hætta að tala um göng, en lofa þess í stað að þeir munu beita sér fyrir því að klára fjármögnun á rannsóknum á hugsanlegum göngum og taka svo framhaldið eftir það.
Georg Eiður Arnarson
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst