KFS er komið í undanúrslit í 4. deild karla þrátt fyrir að hafa tapað sínum fyrsta leik í Íslandsmótinu í kvöld. Eyjamenn unnu fyrri leikinn gegn Létti í 8-liða úrslitum í Reykjavík 0:2 og voru því í góðri stöðu. En gestirnir í Létti voru ekkert sérlega léttir í kvöld og enda jöfnuðu þeir metin í rimmu liðanna með því að komast í 0:2 í fyrri hálfleik. �?hætt er að segja að Eyjamenn hafi farið afskaplega illa með fjölmörg færi sem liðið fékk en Gauti �?orvarðarson átti þrjár marktilraunir sem fóru í markstangirnar, fyrst þrumuskot sem fór af slánni, niður á línuna og út, næst skalla í stöng og í seinni hálfleik átti hann gott skot í innanverð samskeytin en inn vildi boltinn ekki. Einhverjir vildu þó meina að boltinn hefði farið inn í fyrstu tilrauninni. KFS fékk fleiri færi í fyrri hálfleik og voru sterkari lengst af en varnarleikur liðsins í heild var ekki nógu góður í mörkunum tveimur og Léttismenn refsuðu grimmilega.
Í upphafi seinni hálfleiks fengu heimamenn hins vegar víti og það var markahrókurinn Gauti sem fór á punktinn og skoraði markið mikilvæga sem kom KFS áfram í undanúrslit. Bæði lið reyndu að kreista fram fleiri mörk það sem eftir lifði leiks en þrátt fyrir ágætis færi beggja liða, þá urðu mörkin ekki fleiri.
KFS komst því áfram samanlagt 3:2 og mætir þar Kára, sem sló KH út í kvöld 8:2 samanlagt. Kári endaði í öðru sæti A-riðils og tapaði aðeins einum leik og verður viðureignin vafalaust erfið fyrir Eyjamenn. Fyrri leikur liðanna verður laugardaginn 6. september í Eyjum og hefst klukkan 14:00. Í leikjunum gegn Kára er sæti í 3. deild í húfi því sigurvegari rimmunnar kemst upp en tapliðið situr eftir.