Á sunnudaginn lauk afleysingum Breiðafjarðarferjunnar Baldurs, í siglingum til Landeyjahafnar, þegar Herjólfur kom úr slippferð til Danmerkur. Gleðin yfir heimkomu Herjólfs var þó galli blandin þegar gefið var út að þessa viku, að minnsta kosti, verði siglt milli Eyja og Þorlákshafnar, þar sem dýpi sé ekki nægilegt fyrir Herjólf í og við Landeyjahöfn. Vegna óhagstæðs veðurs að undanförnu hafi safnast sandur við hafnarmynnið og vegna bilunar í dýpkunarskipinu Skandiu hafi sá kostur verið valinn að sigla til Þorlákshafnar.