Valsmenn gera ráð fyrir því að geta flogið til Vestmannaeyja á morgun en þeir leika þar gegn ÍBV í Pepsideild karla í fótbolta klukkan 16. Að öðrum kosti sigla þeir með Herjólfi. Valsmenn ætla að fara með hluta hópsins í flugi frá Reykjavík og hluta frá Bakkaflugvelli í Landeyjum. Ef aska frá eldgosinu í Eyjafjallajökli hindrar flug á morgun hyggjast Valsmenn flytja sig yfir í Herjólf og sigla til Eyja. Þá yrði leikurinn væntanlega spilaður á sunnudag í stað laugardags.