„Við lögðum verðandi jólasíld VSV í edikspækil í lok september, lítum til kerjanna nokkrum sinnum á sólarhring og hrærum í. Framleiðslan í ár er með sama sniði og í fyrra enda mæltist jólasíldin afar vel fyrir þá. Bitarnir eru minni í ár en áður, það er eina breytingin. Og svo hófumst við handa ögn fyrr í haust en áður, aðallega vegna þess að við hlökkum svo til að geta smakkað síldina tilbúna sem fyrst í desember!“ segir Ingigerður Helgadóttir, flokkstjóri í uppsjávarvinnslu VSV.
Þegar spyrst út innan Vinnslustöðvarinnar að jólasíldadrottningin hafi ræst gagnverk hátíðarsíldarinnar er það öruggt merki um að sjálf jólahátíðin verði senn á sínum stað, enn eitt árið. Og velunnarar innan VSV og utan hlakka ekki síður til síldarinnar en sjálfra jólanna.
Vegur og virðing jólasíldar VSV vex líka ár frá ári, það sést best á framleiðslutölum. Fyrir jólin 2020 var síld verkuð í sjö körum en þeim fjölgaði síðan ár frá ári í alls 10 kör í ár. Í fyrra voru verkuð alls 2,8 tonn en 3 tonn í ár.
Um mánaðarmótin október/nóvember kemur að þáttaskilum í framleiðslunni. Þá verða síldarbitarnir vigtaðir í sérmerktar fötur með sykurlegi, kryddblöndu, lárviðarlaufum og hátt í einu tonni af lauk. Uppskriftin af blöndunni er annars vel varðveitt hernaðarleyndarmál.
Gera má ráð fyrir að tíu til fimmtán manns gangi til verka með Ingigerði í „pökkuninni“. Svo líður og bíður fram í desember þegar jólasíldin útskrifast og verður afhent eftirvæntingarfullum viðtakendum. Ingigerður bætir við:
„Ég verð að nefna að í fyrra prófuðum við að búa til dálítið af tómatssíld eftir eldgamalli uppskrift. Það var aðallega tilraunastarfsemi upp á grín, rétt til að gefa fólki innan fyrirtækisins að smakka. Afurðin fékk hins vegar mikil og óvænt viðbrögð, ekki síst hjá Pólverjum sem starfa hjá okkur. Þeir tóku tómatssíldinni fagnandi enda kom í ljós að síldarverkun af þessu tagi er vel þekkt í Póllandi. Við bætum við í þennan hluta framleiðslunnar í ár.“
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst