Síðastliðin fimmtudag fóru krakkarnir á Víkinni í óvissuferð í tilefni af því, að brátt munu þau útskrifast af leikskólanum og halda í Grunnskóla Vestmannaeyja.
Krakkarnir mættu öll með dósir að heiman og byrjuðu ferðina í Endurvinnslunni, þar sem að þau fengu pening fyrir dósirnar sem þau skiluðu inn. Ferðin í Endurvinnsluna vakti mikla lukku hjá krökkunum, enda ekki á hverjum degi sem maður fær pening á leikskólanum. Godthaab í Nöf var einnig heimsótt og þar fengu krakkarnir að kynnast starfsemi fyrirtækisins. Síðan var kíkt í heimsókn á lögreglustöðina, leikhúsið og farið í leiki á Stakkagerðistúni. Í hádeginu var haldið í Alþýðuhúsið þar sem að Vöruhúsið gaf öllum pizzu og svala. Eftir matinn kom rúta og sótti hópinn og haldið var í heildverslun Karls Kristmanns, þar sem að krakkarnir fengu að skoða sig um og fengu íspinna. Dagurinn vakti mikla lukku hjá börnum, sem voru svo leyst út með flottum gjöfum þegar komið var aftur á Víkinna, frá Tryggingamiðstöðinni, Landsbankanum, Landflutningum/Samskip, Sjóvá, heildverslun Karls Kristmanns, Íslandsbanka og VÍS. Starfsfólk Víkinnar vildi koma á framfæri kærum þökkum til fyrirtækjana sem gáfu gjafirnar og þá sérstaklega Vöruhúsins fyrir matinn og drykkina.
Við fengum þau Aron Inga, Lovísu Ingibjörgu og Söru Björk til þess að segja okkur hvað þeim fannst skemmtilegast í ferðinni.
Aron Ingi Sindrason
Hvað fannst þér skemmtilegast í óvissuferðinni : Mér fannst skemmtilegast að skoða fiskana.
Ertu orðin spenntur að fara í skóla : Já ég hlakka mjög mikið til, ég hlakka samt mest til að læra og borða nesti.
![]()
Lovísa Ingibjörg Jarlsdóttir
Hvað fannst þér skemmtilegast í óvissuferðinni : Mér fannst skemmtilegast að skoða fiskana þótt ég hafi verið svolítið hrædd.
Ertu orðin spennt að fara í skóla : Já, mjög spennt. Hlakka mest til að læra að lesa og fara út i frímínútur
![]()
Sara Björk Bjarnadóttir
Hvað fannst þér skemmtilegast í óvissuferðinni : Skemmtilegast fannst mér að fá ís og skoða fiskana
Ertu orðin spennt að fara í skóla : Mjög spennt að byrja í skólanum, ég hlakka mest til að byrja að lesa og læra.