Nýtt lífsgæðasetur opnar í Vestmannaeyjum föstudaginn 14. mars og markar þar með tímamót í velferðarþjónustu hér í Eyjum. Setrið er byggt á samstarfi fjögurra fagaðila sem deila sameiginlegri sýn um að efla lífsgæði einstaklinga. Með fræðslu, ráðgjöf og fjölbreyttri meðferð leggja þær áherslu á að bæta líðan fólks, efla sjálfshjálp og styðja það í leik og starfi.
Að Veru standa Tinna Tómasdóttir talmeinafræðingur, Thelma Rut Grímsdóttir næringarfræðingur, Thelma Gunnarsdóttir sálfræðingur og Sólrún Erla Gunnarsdóttir félagsráðgjafi. Þær hafa allar veitt þjónustu hver í sínu lagi, en með því að sameinast undir einn hatt skapast tækifæri til bættari umgjarðar og sameiginlegra úrræða.
Með Veru vonast þær til að auka úrval þjónustutilboða í samfélaginu fyrir stofnanir, fyrirtæki og einstaklinga sem nýtist bæði á staðnum og í fjarþjónustu. Setrið mun hýsa fjölbreytta þjónustu fyrir einstaklinga, fjölskyldur og fyrirtæki eða sveitarfélög. Boðið er meðal annars upp á sálfræðiþjónustu, félagsráðgjöf, handleiðslu, næringarráðgjöf, talþjálfun, greiningar á mál- og talmeinum, sérfræðiráðgjöf auk verkefna tengd vinnuvernd.
Vera vinnuvernd
Boðið verður upp á sérhæfða ráðgjöf og fræðslu um sálfélagslega þætti fyrir fyrirtæki, en samkvæmt lögum um vinnuvernd ber öllum vinnustöðum að hafa stefnu um öryggi og heilbrigði á vinnustað. Þar sem stjórnendur eru oft uppteknir í daglegu amstri getur verið gagnlegt að fá utanaðkomandi aðila til að sinna þessum verkefnum. Með því að leggja rækt við vinnuumhverfið er hægt að stuðla að aukinni starfsánægju, betri afköstum og jákvæðum breytingum varðandi bæði fjarvistir starfsmanna og starfsmannaveltu.
Vera hefur einnig gert samning við Vinnumálastofnun og Virk um fræðslu og námskeið. Þjónusta annarra starfsstétta verður kynnt eftir því sem teymið mun stækka. Verkefni innan Veru eru og verða í sífelldri þróun og vonumst við til að koma sem flestum hugmyndum í framkvæmd.
En hvernig kviknaði hugmyndin af verkefninu?
Að sögn Tinnu Tómasdóttur einum af stofnanda verkefnisins hefur hugmyndin verið í mótun í nokkur ár en markviss vinna hefur átt sér stað í hópi nokkurra fagaðila síðastliðin tvö ár. ,,Við stofnuðum hóp nokkurra kvenna sem allar starfa að einhverju leyti sjálfstætt í svipuðum geira og þá hófst samtal um samstarf sem síðan hefur þróast í þessa átt. Þegar okkur bauðst húsnæði í haust varð að hrökkva eða stökkva og við fjórar höfðum tækifæri á að hrinda verkefninu í framkvæmd.“ Frá því að þær fluttu inn í húsnæðið hafa fleiri fagaðilar sýnt áhuga á að koma að samstarfinu og eru væntanlegir inn í teymið. ,,Við greinum því strax bæði áhuga og þörf fyrir starfsvettvang sem þennan og teymið fer vaxandi. Það er skemmtilegt að upplifa bæði hvatningu og kraft með því að deila rými og hugmyndum, bæði fyrir starfið okkar og vonandi samfélagið“ segir Tinna.
Formleg opnun og kynning
Formleg opnun verður föstudaginn 14.mars kl.17, þá verður haldin stutt kynning á starfseminni í Akóges salnum og eftir það verður opið hús í Veru Lífsgæðasetri við Hilmisgötuna til kl. 19.
Heimasíða Veru er í vinnslu og vonast þær til að opna hana á næstu dögum en þar verður að finna upplýsingar um þjónustuna og tímabókanir. Hægt verður hafa samband við Veru með tölvupósti á sameiginlegt netfang vera@veralif.is auk þess sem hver og ein verður með sitt netfang. Vera er einnig komið með Instagram reikning þar sem deilt verður upplýsingum um starfsemina ásamt fræðslu og fróðleik.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst