Tryggvi Hjaltason fer yfir stöðu Vestmannaeyja –
Verðum að taka áhættu og framkvæma
– Hér er fjármagn – Tækifæri og hugvit – Mikil þekking – Vantar sérfræðinga og frumkvöðla
„Trausti bróðir segir að Vestmannaeyjar séu eins og Ísland á sterum. Vandamál, áskoranir og tækifæri séu þau sömu en aðeins ýktari en á fastalandinu. Sjálfum finnst mér Vestmannaeyjar vera á sama stað og Ísland var á rétt eftir hrun. Þá gerði ég úttekt á stöðu Íslands og velti fyrir mér stöðunni á hugverkamálum, hvernig væri að búa á Íslandi, hvaða störf væru í boði og hvernig yrði að ala upp börnin mín hér. Niðurstaðan var að Ísland er einhæft auðlindahagkerfi. Útflutningur að nær öllu leyti háður náttúruauðlindum, sjávarafurðir, stóriðja og í vaxandi mæli ferðamennska. Einkenni slíkra hagkerfa eru óstöðugleiki og miklar sveiflur, allt upp á sama tíma og allt niður á sama tíma. Hagvöxtur ýmist í hámarki eða samdráttur sem gerist að meðaltali á níu ára fresti á Íslandi“ segir Tryggvi Hjaltason, formaður stjórnar Þekkingarseturs Vestmannaeyja um stöðu Vestmannaeyja og hvernig hann sér framtíðina.
En tækifærin eru fyrir hendi á Íslandi. Við höfum vel menntað vinnuafl, Íslendingar eru fljótir að bregðast við breytingum, tæknivæðing samfélagsins er mikil og innviðir okkar almennt öflugir. Í samstarfi öflugra hugverkafyrirtækja var Hugverkaráð stofnað sem Tryggvi hefur leitt síðustu ár. „Ég taldi á þeim tíma að Ísland ætti mikla möguleika á að verða hugverkaland,“ segir Tryggvi og nefndi þrennt sem vantaði helst svo við gætum blómstrað. „Aðgang að fjármagni til fjárfestinga, stöðugan aðgang og gott stuðningskerfi nýsköpunar þar sem við skoruðum lágt. Staðan eftir hrun var sú að ekki borgaði sig að koma á fót nýjum hugverkafyrirtækjum á Íslandi enda var lítið um slíkt. Þriðja atriðið var sérfræðiþekking til að byggja upp nýsköpun í hagkerfinu. Til þess þurfti að flytja inn erlenda sérfræðinga og styrkja menntun þeirra í skólakerfinu okkar.“
Stjórnvöld brugðust við
Tryggvi segir að stjórnvöld hafi brugðist við, stóreflt stuðningskerfið og núverandi endurgreiðslukerfi rannsókna og þróunar er með því besta í heiminum. Hægt er að fá hlutfall af öllum greiddum sköttum vegna rannsókna og þróunarverkefni endurgreidda, einnig er hægt að fá skattahvata til að fjárfesta í nýjum fyrirtækjum og innlendir og erlendir sérfræðingar fá skattafríðindi gegn því að koma með þekkingu sína til landsins og byrja að vinna að íslenskum hugverkum. Stofnaðir voru fleiri Vísissjóðir í kjölfarið á stofnsetningu Kríu hvatasjóðs hjá stjórnvöldum.
„Dæmi um gildi Kríu er að fimm nýir Vísisjóðir komu inn með 40 milljarða af áhættufjárfestingarfé sama árið og Kría er opnuð. Margfalt met í Íslandssögunni. Hugverkafyrirtæki byrjuðu að pumpast inn og þau sem fyrir voru tóku að stækka og setja nú verkefni aftur upp á Íslandi. Ísland er orðið samkeppnishæft í þessum efnum. Útflutningur hugverka margfaldaðist í kjölfarið, fór úr 64 milljörðum 2010 í 265 milljarða á síðasta ári. Þetta er lygilegt stökk enda hreinar gjaldeyristekjur og Hugverk nú ein af fjórum stoðunum í hagkerfinu, sú eina sem er ekki auðlindadrifin“ segir Tryggvi og telur að sambærilegt verk sé hægt að vinna í Vestmannaeyjum.
Vantar frumkvöðla
„Við erum með fjármagn, tækifæri, hugvit, og mikla þekkingu á grunn atvinnuveginum, sjávarútveg. Það vantar hins vegar sérfræðinga og frumkvöðla sem eru tilbúnir að taka áhættu og framkvæma. Þeir eru þó til, menn eins og Daði Páls í Laxey er gott dæmi um hvað öflugur maður getur gert. Fjármagnið er til staðar, bæjarstjórn er tilbúin að hjálpa og greiða fyrir og samfélagið og fólk vill taka þátt í þessu.“
Tryggvi segir spennandi tíma fara í hönd. „Okkur vantar rammann því það eru ótrúlega mörg tækifæri til nýsköpunar í kringum sjávarútveginn. Líka tengingu við nýja stuðningskerfið. Í það setja stjórnvöld 20 milljarða í á ári. Þar er Hörður Baldvinsson, forstöðumaður Setursins að gera vel, og hefur umsóknum fjölgað og fjármagn til Vestmannaeyja aukist undanfarin ár“ segir Tryggvi og nefnir rauðátu- og kafbátaverkefni Þekkingarsetursins sem góð dæmi í því sambandi en bætir við að tækifærin séu á hverju strái.
Miklir möguleikar
„Ég held að hér gætum við séð sambærilegt stökk og á Íslandi, gætum farið úr því sem er líklega nokkur hundruð milljón króna hugverkaútflutningur í Vestmannaeyjum í dag í 20 milljarða á nokkrum árum með góðum áætlunum, metnaði og virkjun frumkvöðla með atvinnulífinu okkar. Það eru ótrúlega spennandi tími framundan.“
Ég flutti erindi á 100 ára afmæli Vestmannaeyjabæjar 2019 um framtíð hagkerfisins hér. Í undirbúningsvinnunni settist ég niður með stærstu atvinnurekendunum og þeim sem eiga peningana og spurði; – af hverju hefur ekki næsta Marel orðið til í Vestmannaeyjum? Mat allra var svipað. Komi einhver með öflugt teymi með kröftugu fólki þá verður þátttaka og stuðningur með þeim góður. – Við erum á fullu í okkar kjarnastarfsemi en erum til í að hjálpa frumkvöðlum með sannfærandi plön og sem vilja vinna með okkur að aukinni virðisaukningu, var svarið,“ segir Tryggvi og heldur áfram.
Hvar eru tækifærin
„Sjálfur myndi ég byrja á að skoða t.d. Laxey verkefnið, sem er í tugmilljarða uppbyggingu og skoða hvaða þjónustu þeim kemur til með að vanta. Aðföng, sérfræðiþjónustu eða annað sem getur hjálpað eða virkjað aukin verðmæti í kringum það risa verkefni. Kanna hvort nú sé ekki kominn grunnur og eftirspurn eftir einhverju sem við t.d. flytjum inn í dag en getum framleitt í Eyjum.
Ég myndi svo næst fara og fá að rölta með Binna í Vinnslustöðinni, spjalla við Stebba og Guðbjörgu í Ísfélaginu og skoða með þeim virðiskeðjuna og sjá hvar eru tækifæri. Þau eru fyrir hendi svo tugum skiptir, það veit ég. Það sem þarf er að finna verkefni, gera áætlun með góðu fólki, tengjast inn í stuðningskerfið og byrja að byggja tengslanet og verðmæti saman. Þá er ég sannfærður um að fjármagn fengist til að koma verkefnum af stað. Tækifærin og peningarnir eru til staðar en það vantar fólk sem er tilbúið að stinga sér í djúpu laugina,“ segir Tryggvi en bendir á að frumkvöðlastarfsemi kostar blóð, svita og tár.
Minni áhætta
„Tækifærin eru mörg og augljós en áhættan er minni hér en t.d. í Reykjavík, því það eru færri um kökuna og fleiri uppsöfnuð tækifæri. Í þessu umhverfi tel ég að Þekkingarsetrið geti spilað stórt hlutverk. Dæmi um það eru t.d. fræðsluerindi um tækifæri í sjávarútvegi sem haldið var fyrir nokkrum árum og Hrafn Sævaldsson stóð fyrir. Þar er mér sagt að hugmyndin að Laxey hafi orðið til. Það sama má segja um rauðáturverkefnið. Hörður fór af stað, sótti pening í stuðningskerfi stjórnvalda og er nú að ljúka seinni rannsóknarleiðangrinum á Árna Friðrikssyni. Þar er notast við gervihnetti og tækni sem ekki hefur verið reynd áður. Þarna er að verða til stórkostlegt tækifæri og ég trúi ný stoð til veiða í Vestmannaeyjum. Ég hef rætt við fjárfesta uppi á landi og þeir vilja ólmir fá að fylgjast með þessari þróun.“
Góð sambönd skipta máli
Tryggvi segir þetta gott dæmi um það sem hægt er að gera. Hörður fer af stað, talar við þekkingarsamfélagið í Vestmannaeyjum og keyrir málið áfram. „Nú eru sjávarútvegsfyrirtækin komin með það sem þarf til að hefja veiðar og vinnslu. Til mikils er að vinna og gæti þetta jafnvel orðið eins og þegar við fengum makrílinn fyrir tíu til 15 árum. Nýr stofn og mjög verðmætur.“
Þarna segir Tryggvi að hafi hjálpað að í stjórn Setursins er forstjóri Hafró og líka fólk frá Háskóla Íslands, sambönd sem Hörður nýtti til að landa t.a.m. öðru verkefni, kafbátverkefninu. Þeir gætu nýst til leitar á fiskistofnum sem gæti gagnast okkur Vestmannaeyingum. „Það kostar mikla peninga þegar loðnan, sem skipstjórar eru sannfærðir um að er þarna einhvers staðar finnst ekki. Þetta eru tvö dæmi um það sem nú þegar er í gangi og gætu haft áhrif á hagkerfið okkar í framtíðinni. Þarna skiptir máli að fjármagnið, sérþekkingin, bæjarfélagið og stóru fyrirtækin stökkvi á þetta með okkur og skoði. Flest af þessu getum við gert sjálf,“ sagði Tryggvi að endingu.
Mynd: Rauðáta ehf. hélt aðalfund í síðustu viku. Þar mættu Agnes Einarsdóttir, Aníta Elíasdóttir, Arnar Sigurmundsson,
Hörður Baldvinsson, Viðar Elíasson, Jóhann Pétursson, Páll Guðmundsson og Stefán Friðriksson. Tryggvi er í stjórninni.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst