„Ég hef heilmikinn skilning á því að fólk mótmæli ef það telur að fyrirhuguð sé röskun á ásýnd Eldfells, eins og sagt er í yfirskrift þessarar undirskriftasöfnunar. Tala nú ekki um ef ég teldi að verið væri að framkvæma stórkostlegt og óafturkræft inngrip í náttúruna eins og sumir halda fram; þá myndi ég sjálfur skrifa undir mótmælin. Þessi staðhæfing er hins vegar röng. Það hefur alltaf legið fyrir sú staðfasta ætlun listamannsins og þeirra landslagsarkitekta sem vinna á hans vegum að þessi framkvæmd verði fyllilega afturkræf ef vilji stæði til þess í framtíðinni’’.
Þetta segir Páll Magnússon, forseti bæjarstjórnar, í tilefni af undirskriftasöfnun gegn röskun á ásýnd Eldfells.
„Það er líka auðvelt að hafa skilning á því að fólk sé tortryggið út í fyrirætlanir sem það hefur ekki séð og ekki fengið neina kynningu á. Það er þó ekki vegna þess að bæjaryfirvöld hafi verið að pukrast með þetta sem eitthvað leyndarmál, eins og einhverjir hafa verið að gefa til kynna, heldur vegna þess að listamaðurinn sjálfur hefur auðvitað stjórn á því hvenær hann telur verk sitt tilbúið til almennrar kynningar. Og það er fagnaðarefni að nú er sú stund runnin upp. Stefnt er að því að kynna bæjarbúum verkefnið á allra næstu vikum og ég er sannfærður um að eftir þá kynningu muni þeim fækka verulega sem nú hafa áhyggjur af því að ekki verði vel gengið um náttúruna,’’ segir Páll.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst