Næsti Aglow fundur verður haldinn miðvikudagskvöldið 1. febrúar kl. 19.30 í Safnaðarheimili Landakirkju. Við áttum gott samfélag á janúarfundinum þar sem við ræddum hvað stæði upp úr um áramót. Við beindum sjónum okkar að því að um þessar mundir eru fimmtíu ár frá því að eldgos braust út á Heimaey. Því finnst okkur kjörið að halda áfram og ræða um hvar erum við staddar fimmtíu árum síðar. Margar okkar upplifðu gosið úr fjarlægð, sumar voru ekki fæddar og aðrar bjuggu ekki í Eyjum. Svo það er hægt að skoða stöðuna frá mörgum hliðum. Við höfum margt að þakka fyrir, hvernig var staðið að uppbyggingu og breytt verðmætamat. Mikilvægt er að huga að andlegri líðan og skoða hvar erum við staddar í dag. Hvar er hjarta okkar og hvert stefnum við? Ég kom til Eyja í ágúst árið 1977 og tók þátt í sumarátaki þar sem voru haldnar samkomur í KFUM húsinu. Það var mikill andlegur þorsti og fljöldi manns vildi gefast Kristi og styrkja samfélagið við Guð. Það var sérstök reynsla fyrir mig, rúmlega tvítuga stúlku úr Kópavogi, að heyra sögur fólks og margir höfðu misst allar veraldlegar eigur sínar í gosinu. Um haustið 1977 fluttum við hjónin til Eyja og höfum tekið þátt í að móta það samfélag sem við búum í. Við erum þakklát og glöð yfir því að heimili okkar er á Heimaey. Við getum leitað okkur að andlegri næringu í Guðs orði og í Davíðssálmum eru mörg styrkjandi orð:
Guð er oss hæli og styrkur,
örugg hjálp í nauðum.
Því óttumst vér eigi þótt jörðin haggist
og fjöllin steypist í djúp hafsins, Sálm 46.2-3
Í Jesaja standa þessi orð:
Því að þótt fjöllin bifist
og hæðirnar haggist
mun kærleikur minn til þín ekki bifast
og friðarsáttmáli minn ekki haggast,
segir Drottinn sem miskunnar þér. Jesaja 54.10
Verið velkomnar á Aglow fundinn næsta miðvikudag og ég hlakka til að sjá ykkur sem flestar og nýjar konur eru velkomnar.
Kærleikskveðjur
Þóranna M. Sigurbergsdóttir
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst