Veðurstofa Íslands hefur gefið út viðvaranir fyrir alla landshluta. Ýmist appelsínugular eða gular. Appelsínugul viðvörun: Breiðafjörður, Vestfirðir, Norðurland eystra, Austurland að Glettingi, Austfirðir, Miðhálendi og Strandir og norðurland vestra.
Gul viðvörun vegna veðurs: Höfuðborgarsvæðið, Suðurland, Faxaflói, Breiðafjörður, Vestfirðir, Norðurland eystra, Austurland að Glettingi, Suðausturland, Miðhálendi, Allt landið og Strandir og norðurland vestra
Á Suðurlandi er gert ráð fyrir vestan hríð (Gult ástand). Gildir fyrri viðvörunin þar frá morgundeginum, 3 feb. kl. 15:00 – 21:00. Vestan 15-23 m/s og él með lélegu skyggni og versnandi akstursskilyrðum.
Sunnan illviðri (Gult ástand). 5 feb. kl. 18:00 – 6 feb. kl. 14:00. Sunnan 20-30 m/s (stormur, rok eða ofsaveður). Hlýtt um allt land og rigning, talsverð eða mikil sunnan- og vestanlands. Raskanir á samgöngum líklegar. Útlit fyrir vatnavexti. Líkur á staðbundnu foktjóni.
Gengur í austan 10-18 m/s í kvöld og nótt með snjókomu eða rigningu um tíma víða um land. Hiti um og yfir frostmarki.
Sunnan 18-28 austanlands á morgun, annars breytileg átt 10-20. Rigning eða slydda og hiti 2 til 8 stig, en snjókoma norðvestantil.
Gengur í vestan 20-30 seint um daginn og kólnar með snjókomu eða éljum, en styttir upp á austanverðu landinu. Hvassast í vindstrengjum norðanlands. Dregur úr vindi sunnan heiða annað kvöld.
Spá gerð: 02.02.2025 18:16. Gildir til: 04.02.2025 00:00.
Á þriðjudag:
Suðvestan 10-18 m/s og éljagangur, en bjart að mestu um landið norðaustanvert. Vægt frost. Bætir heldur í vind um kvöldið.
Á miðvikudag:
Suðvestan 13-20 og él, en áfram þurrt norðaustanlands. Hvessir seinnipartinn og hlýnar með rigningu eða slyddu, víða sunnan 20-28 m/s (stormur eða rok) um kvöldið.
Á fimmtudag:
Sunnan 23-30 m/s (rok eða ofsaveður) um morguninn og talsverð rigning. Hiti 6 til 14 stig, hlýjast í hnúkaþey á norðaustanverðu landinu. Snýst í suðvestan 10-18 eftir hádegi með éljum og kólnandi veðri, fyrst vestast á landinu.
Á föstudag:
Sunnan og suðvestan 10-18 og snjókoma eða él, en yfirleitt þurrt á Norðaustur- og Austurlandi. Vægt frost.
Á laugardag:
Vaxandi sunnanátt með rigningu eða slyddu og hlýnandi veðri. Áfram þurrt norðaustantil.
Spá gerð: 02.02.2025 08:40. Gildir til: 09.02.2025 12:00.
Á morgun mun miðja mjög djúprar lægðar fara yfir landið með óveðri víða um land. Vindur snýst rangsælis kringum lægðir og því mun blása af mismunandi styrk og stefnu á mismunandi tímum. Úrkoman sem fylgir lægðinni verður líka ýmist rigning, slydda eða snjókoma, svo það er margbreytilegt veður í vændum.
Ef við gerum tilraun til að lýsa veðrinu á morgun í stuttu máli, þá er það þannig að fyrripartinn er veðrinu í grófum dráttum tvískipt. Þá er á austurhelmingi landsins sunnan stormur með rigningu og hlýindum. Á vestanverðu landinu er spáð hægari norðlægri átt með slyddu eða snjókomu og svalara veðri. Seinnipartinn á morgun verður miðja lægðarinnar komin að norðurströndinni og þá snýst í vestanátt sem verður sterk, ýmist stormur, rok eða ofsaveður, hvassast í vindstrengjum norðanlands. Það kólnar með vestanáttinni og víða útlit fyrir snjókomu eða él, en syttir upp austantil á landinu. Veðrið gengur síðan niður sunnanlands annað kvöld og aðra nótt norðantil.
Á þriðjudag og fram eftir miðvikudegi er veðurútlitið einfaldara. Þá er spáð allhvassri suðvestanátt með éljum, en þurrt á norðaustanverðu landinu. Vægt frost.
Spár gera síðan ráð fyrir að á miðvikudagskvöld og alveg fram á fimmtudag verði hvassasta veðrið í yfirstandandi óveðrakafla. Þá er útlit fyrir sunnan rok eða ofsaveður á öllu landinu með rigningu og hlýindum, jafnvel úrhelli sunnan- og vestanlands. Nú þegar hefur verið gefin út gul viðvörun vegna þessa veðurs, en ef spáin helst lítið breytt, þá mun viðvörunarstigið hækka þegar nær dregur og líkurnar aukast á að spáin gangi eftir, sbr. áhættumatsfylgi sem fylgir viðvöruninni.
Spá gerð: 02.02.2025 16:34. Gildir til: 03.02.2025 00:00.
„Við viljum góðfúslega benda farþegum okkar sem ætla sér að ferðast með okkur seinni partinn á morgun mánudag að veður-og sjóspá gefur til kynna að aðstæður til siglingar eru ekki hagstæðar. Hvetjum við því farþega til þess að ferðast fyrr enn seinna ef þeir hafa tök á og þurfa að komast til/frá meginlandinu. Sama á við um miðvikudag og fimmtudag eins og staðan er núna. Ef gera þarf breytingu á áætlun, þá gefum við það út um leið og það liggur fyrir. Herjólfur siglir til Þorlákshafnar þar til annað verður tilkynnt,” segir í tilkynningu frá Herjólfi ohf.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst