Bæjarráð Vestmannaeyja fór yfir stöðuna í samgöngum á milli lands og Eyja á fundi sínum í gær. Í síðustu viku var tilkynnt að innviðaráðuneytið hafi tryggt Vegagerðinni fjármagn til að framlengja samningi við Mýflug og var ríkistyrktu flugi til Vestmannaeyja þannig framlengt um tvær vikur og flogið fram í miðjan mars.
Samgöngur við Vestmannaeyjar hafa verið mjög erfiðar undanfarnar vikur sem hefur mikil áhrif á samfélagið í Eyjum. Ekki hefur verið hægt að sigla í Landeyjahöfn vegna grynnsla við höfnina og ekki hefur gefist gluggi fyrir Álfsnesið til að dýpka. Herjólfur hefur þurft að sigla í Þorlákshöfn vegna stöðunnar en ferðir þangað verið stopular vegna veðurs og engan veginn þjónað þörfum samfélagsins.
Ljóst er að Landeyjahöfn er ekki fullkláruð sem heilsárshöfn og hefur bæjarstjóri, fyrir hönd bæjarráðs, óskað eftir fundi með Vegagerðinni til að fara yfir stöðuna á höfninni.
Í afgreiðslu ráðsins segir að bæjarráð telji ljóst að slæm veður í vetur sýni fram á mikilvægi þess að haldið sé uppi reglulegu áætlunarflugi til Vestmannaeyja, a.m.k. yfir vetrartímann. Fer ráðið fram á að ríkisstyrkt áætlunarflug verði tryggt að lágmarki út marsmánuð og/eða þar til Landeyjahöfn opnar að fullu.
Tryggja þarf að allar leiðir verði skoðaðar varðandi úrbætur á Landeyjahöfn, m.a þeirra lausna sem kynntar voru á íbúafundi síðastliðið haust. Samhliða úrbótum á höfninni verður að kanna til hlítar framtíðarlausnir á samgöngum við Vestmannaeyjar.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst