Það má með sanni segja að Eyjamenn hafi verið heppnir að ná þremur stigum í dag þegar ÍBV tók á móti Fram. ÍBV var mun betri aðilinn fyrstu tuttugu mínúturnar en eftir það var leikurinn í jafnvægi. Christian Olsen kom ÍBV í 2:0, Olsen, Olsen eins og það er kallað, en Framarar neituðu að gefast upp og minnkuðu muninn í 2:1. Þórarinn Ingi Valdimarsson kom ÍBV í 3:1 úr umdeildri vítaspyrnu en enn komu Framarar til baka og minnkuðu muninn í 3:2. Í blálokin fór boltinn í þriðja sinn í mark ÍBV þegar Eyjamenn virtust hafa skorað sjálfsmark. Markið var hins vegar dæmt af þar sem sóknarmaður Fram var rangstæður og hafði áhrif á leikinn, þótt hann hefði ekki komið við boltann sjálfur. Það var því kannski ekkert skrítið að Framarar væru ósáttir í leikslok.