„Ég hef unnið hjá Vinnslustöðinni í 42 ár og fékk það innprentað hjá Bjarna Sighvatssyni, stjórnarformanni fyrirtækisins til margra ára, að heiti skipa skuli máluð í hvítum eða ljósum litum. Svart væri litur dauðans og það boðaði ekki gott fyrir skip og áhöfn þess.
Þegar ég sá heiti „nýja“ Sighvats Bjarnasonar VE svartmálað spyrnti ég við fótum enda eigum við að virða óskir forfeðranna og nú veit ég að Bjarni talaði í anda föður síns, Sighvats Bjarnasonar, sem sendi skilaboð að handan á sínum tíma.“
Þetta segir Magnús Jónasson stýrimaður í tilefni af sérstæðri litauppákomu sem varðar Sighvat Bjarnason VE, áður Kap VE. Skipið var í slipp í desember 2022 og kom þaðan nýmálað en af einhverjum ástæðum var skipsheitið svart á brúnni. Það þótti Magga alveg ófært og sagði við stjórnendur Vinnslustöðvarinnar að skipið yrði ekki gert út áfram með heitið sitt í svörtu. Hann kom því til leiðar að stafirnir yrðu lýstir og fagnar mjög viðbrögðum fyrirtækisins.
„Við eigum að virða óskir forfeðranna, hvernig svo sem þær berast okkur. Þeir sem hunsa slíkt eru ekki í góðum málum,“ segir Maggi stýrimaður.
Guðmunda Bjarnadóttir Sighvatssonar staðfestir að afi sinn, Sighvatur Bjarnason, hafi á sínum tíma birst sér í draumi og beðið fyrir skilaboð til Vinnslustöðvarinnar um að lýsa nýlega málað heiti þáverandi Sighvats Bjarnasonar VE. Guðmunda sagði föður sínum frá draumnum og Bjarni Sighvatsson brást strax við með því að láta koma fyrir ljósum stöfum úr áli á skipið.
Maggi stýrimaður minnist þess enn þann dag í dag að hve Bjarna var mikið í mun þá og síðar að skipsheiti skyldu ævinlega vera hvít eða alla vega í ljósum lit.
Guðmunda rifjar upp annað úr draumnum umtalaða:
„Þetta átti sér stað þegar Vinnslustöðin keypti skip frá Noregi og nefndi Sighvat Bjarnason. Þarna var verið að mála nafnið á skipið í fyrsta sinn og þurfti að breyta svörtu í hvítt eftir skilaboðin í draumnum.
Afi lét þess líka getið að hann myndi fara með skipinu í fyrsta túrinn. Þess vegna fylgdist ég vel með því hvernig áhöfninni gengi. Og viti menn, Sighvatur Bjarnason VE rótfiskaði, fyllti sig í tveimur köstum.
Áhöfnin vissi aldrei um að þann sem var með henni um borð, var ekki skráður í skipsrúm en hafði greinilega sín áhrif á gang mála í jómfrúrferðinni undir nýju nafni og á nýjum heimaslóðum!“
Maggi hóf sjómannsferil sinn á Sighvati Bjarnasyni VE árið 1981 og var eftir það á KAP (sem nýlega fékk heitið Sighvatur Bjarnason). Núna er hann á skipstjóri á Ísleifi VE á móti Eyjólfi Guðjónssyni en brá sér tímabundið á Sighvat Bjarnason sem yfirstýrimaður.
Sighvatur Bjarnason VE gerði það gott í fyrstu veiðiferðinni með hvítu stafina. Skipið kom til Eyja á miðvikudaginn var, 1. mars, með stærstu loðnuna sem til Vinnslustöðvarinnar hefur borist á vertíðinni.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst