Undarlegt rugl með áætlun Herjólfs
Vetraropnun tók gildi á þjóðveginum til Eyja 1. september sl. Þegar að tekin var í gagnið áætlun sem stjórnendur Herjólfs ohf. kalla vetraráætlun. Svokölluð sumaráætlun hafði þá verið í gildi frá 1. Júní eða í heila 3 mánuði. Það er óneitanlega svolítið sérstakt að sjá, það sem að ég vil kalla fornaldarhugsun, í verki og að horfið hafi verið frá því framfaraspori sem komið hafði verið á með að hafa eina áætlun í gildi allt árið og hætta þessu rugli með sumar og vetraráætlun.
Ein áætlun, með 7 ferðum á dag allt árið, lágmark
Herjólfur er þjóðvegurinn til Eyja og sá þjóðvegur á að vera opinn alla daga ársins, amk. frá því snemma morguns og fram á nótt, helst allan sólarhringinn. Í nútíma samfélagi er annað bara ekki ásættanlegt og það að bjóða upp á það sem kallað er sumaráætlun með 7 ferðum á dag, einungis frá 1. júní til 31. ágúst, er vægast sagt ótrúlegt.
Eitt af þeim markmiðum sem við höfðum, sem vorum í forystu fyrir að færa forræði á rekstri Herjólfs heim til Eyja, var að fjölga ferðum í amk. 7 ferðir á dag og sama áætlun væri í gildi allt árið. Þjóðvegurinn til Eyja ætti að vera með sömu opnun sama hvaða árstími væri, svo fremi að veður hamlaði ekki för. Með þetta var lagt upp og það náðist í gegn.
Óskiljanleg gamaldags hugsun með sumar- og vetraráætlun
Einhverra hluta vegna virðast núverandi stjórnendur Herjólfs ohf. ekki hafa haft bein í nefinu til að halda í þann áfanga sem náðist og hafa horfið til þess að rugla með áætlun milli vetrar- og sumartíma og í þeirra huga ríkir vetur í Eyjum í 10 mánuði, sem er algjörlega óskiljanlegt.
Þegar Covid fárið skall á var einum þjóðvegi á landinu nánast lokað um hríð. Þjóðveginum til Eyja, þegar ferðum Herjólfs var fækkað verulega og í framhaldi af því var horfið frá 7 ferðum allt árið. Ríkið hefur komið til skjalanna og veitt milljörðum í alls konar styrki og bætur vegna Covid takmarkana og hvergi var dregið úr opnun þjóðvega, nema á leiðinni til Eyja. Þar var þjónustan skert verulega og svo virðist vera að hluti af þeirri skerðingu sé kominn til að vera, með svokallaðri vetraráætlun.
Óttalegur aumingjaskapur
Auknar og bættar samgöngur er lykillinn að frekari vexti hvar sem er og það á ekki síst við í Eyjum. Það er lítil framsýni og dugur í þeim sem eru tilbúnir að skera niður opnunartíma þjóðvegarins til Eyja. 7 ferðir á dag að lágmarki og ein áætlun, burt séð frá árstíð, er algjör lágmarkskrafa. Þeim áfanga var búið að ná og því er það óttalegur aumingjaskapur að geta ekki haldið því áfram.
Telst fækkun ferða, í boði meirihluta bæjarstjórnar, vera framsókn?
Fækkun ferða með Herjólfi telst vart til samgöngubóta og því er hjákátlegt að á sama tíma og fækkun ferða er tilkynnti þá séu einhverjir að berja sér á brjóst og skreyta sig fjöðrum fyrir Framsókn í samgöngum.
Fækkun ferða Herjólfs er bara óttalegur aumingjaskapur sem auðvitað er í boði meirihluta H og E lista bæjarstjórnar, sem fer með meirihluta í stjórn Herjólfs ohf.
Grímur Gíslason
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst