„Þetta er fjórða síldarveislan á aðventu og sú fjölmennasta frá upphafi. Við höfum skapað skemmtilega hefð sem fellur vel í kramið hjá okkar fólki og öðrum sem mæta,“ segir Sindri Viðarsson, sviðsstjóri uppsjávarsviðs Vinnslustöðvarinnar, í tilefni af afar vel heppnaðri síldarveislu VSV fimmtudaginn 7. desember.
„Við bjóðum öllum starfsmönnum í mat og svo mæta líka fyrrverandi starfsmenn og fleiri síldarvinir eftir atvikum. Heiðurinn af öllu saman eiga auðvitað Inga og Bennó skuldlaust [Ingigerður Helgadóttir og Benóný Þórisson].
Þau sjá um að verka jólasíld Vinnslustöðvarinnar, skiptast á síldarfötum við önnur uppsjávarfyrirtæki og skipuleggja sjálfa síldarveisluna hér með öllu tilheyrandi; kartöflum, rúgbrauði, eggjum og drykkjarföngum. Veisluborðið er glæsilegt og matsalurinn skreyttur í samræmi við tilefnið.“
Aðalmálið í síldarveislunni var að sjálfsögðu að bragða á jólasíld VSV og hún þykir að sjálfsögðu bera af, með fullri virðingu fyrir keppinautum úr öðrum héruðum og fyrirtækjum. Tómatsíld Ingu deildi toppsætinu með VSV-síldinni.
Þarna var líka síld frá Ísfélaginu í Vestmannaeyjum, Ísfélaginu á Þórshöfn, Eskju, Síldarvinnslunni, Skinney-Þinganesi og Loðnuvinnslunni.
Veislan er öðrum þræði gæðamat fyrir eigin framleiðslu og keppninautanna, það er að segja hvaða síld komi næst VSV-síldinni að gæðum, áferð, umbúðum og þar fram eftir götum. Sindri segir að skoðanir séu eðlilega skiptar um hvaða síld hljóti 2. og 3. sætið og afgreiðir málið á diplómatískan hátt líkt og fyrirmyndar sendifulltrúi í utanríkisþjónustunni:
„Öll var síldin afar góð, hvaðan sem hún kom. Uppskriftir eru mismunandi og sömuleiðis er mismunandi hvað sett er með bitunum í föturnar.
Þetta er einmitt það sem gerir veisluna spennandi og áhugaverða. Sumt svipað, annað ólíkt, allt bragðgott.“
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst