Í hvaða farvegi eru þessir 3.6 milljarðar sem Vestmannaeyjabær fékk fyrir Hitaveitu Suðurnesja ? Lokagreiðsla hefur þegar borist Vestmannaeyjabæ og Vestmannaeyjabær er nú að fara yfir stöðuna.
Hvaða möguleika er verið að skoða ?
Eins og gefur að skilja var höfuð áhersla lögð fjárvörslu um leið og greiðslur bárust enda mikilvægt að ávaxta féð sem allra best á meðan farið er yfir stöðuna. Vestmannaeyjabær samdi því við viðskiptabanka um fjárvörslu til þriggja mánaða. Sveitarfélag getur ekki undir neinum kringumstæðum leyft sér að fara með fjármagn sem áhættufé og því var farin sú leið að semja um fasta innlánsvexti án nokkurrar áhættu fyrir sveitarfélagið. Að þeim samningum loknum hefur svo fyrst og fremst verið lögð áhersla á að fara yfir lánasamsetningar og uppkaupamöguleika. Sömuleiðis er horft til skuldbindinga svo sem vegna samninga um leigu á fasteignum, lífeyrissjóðs og fleira.
Er búið að ráðstafa hluta af þessu fjármagni í framkvæmdir t.d. Fjölnota Íþróttahús ?
Nei. Sem betur fer dettur ekki nokkrum manni í hug að líta sem svo á að hér sé um ”nammipeninga” að ræða sem bæjarfulltrúar geta varið til gæluverkefna. Við seljum Hitaveitu Suðurnesja bara einu sinni og höfuð áhersla verður lögð á heildar endurskoðun rekstrar. Vestmannaeyjabær vinnur eftir fjárhagsáætlun ársins og þriggja ára áætlun. Þar eru settar fram metnaðarfullar hugmyndir um framkvæmdir og viðhald, en þriggja ára áætlun er sett fram löngu áður en hugmyndir kviknuðu um að Vestmannaeyjabær myndi selja hlut sinn í Hitaveitunni. Í þriggja ára áætlun en gert ráð fyrir byggingu menningarhús, endurbótum á aðstöðu til vetrariðkunar knattspyrnu, þátttöku í uppbyggingu háskólasamfélags, uppbyggingu skipalyftu og margt fleira. Eftir þessari áætlun vinnum við og ég fullyrði að bæjarstjórn hefur til að bera metnað til að gera vel í framkvæmdum og vilji er til uppfæra samfélagið á mörgum sviðum.
Eru einhverjir sérfræðingar að skoða málin fyrir Vestmannaeyjabæ ?
Já Vestmannaeyjabær hefur hæft starfsfólk með djúpa og góða sérfræðiþekkingu á rekstri bæjarfélagsins. Hitann og þungan af þessari vinnu hafa ásamt mér borið fjármálastjóri bæjarins og framkvæmdastjóri stjórnsýslu- og framkvæmdarsviðs. Síðan er aðkeypt ráðgjöf þegar þörf er á.
Hver er núverandi skuldastaða Vestmannaeyjabæjar ? ´
Skuldir og skuldbindingar Vestmannaeyjabæjar eru rúmir 4 milljarðar eða rétt um milljarði meiri en salan á HS skilaði okkur. Það er því ljóst að þótt sala á hlut okkar í HS létti okkur róðurinn þá þarf áfram að gæta aðhalds og hagræðingar í rekstri. Í Vestmannaeyjum ríkir nú bjartsýni á framtíðina og þá ekki síst þar sem loks liggur fyrir ákvörðun um framtíðarsamgöngur. Við verðum því að horfa til þess að endurskipulagning létti róðurinn til lengri tíma litið. Við ætlum okkur að fjölga hér íbúum og halda áfram að veita hámarksþjónustu á öllum sviðum.
Mun þessi breyting á skuldastöðu bæjarins opna á tækifæri á atvinnumarkaðnum ?
Spurning þessi er nú flóknari en svo að hægt sé að svara henni með stuttu svari á fullnægjandi máta en ég er tilbúinn til að ræða sérstaklega við ykkur um atvinnumarkaðinn hvenær sem er. Hlutverk Vestmannaeyjabæjar á atvinnumarkaði er svo margþætt. Til dæmis er Vestmannaeyjabær langstærsti atvinnurekandinn í Eyjum og til marks um fjölda starfsmanna þá voru gefnir út 718 launaseðlar hjá launadeild Vestmannaeyjabæjar núna um mánaðarmótin. Hvað atvinnumarkaðinn í heild varðar þá er það fyrst og fremst hlutverk bæjarins að ganga þannig frá jarðveginum að þar fái öflugt atvinnulíf þrifist. Samgöngur leika náttúrulega lykilhlutverk og því höfum við tekið alvarlega. Vestmannaeyjabær er í bullandi viðskiptum og okkar viðskipti snúast um þjónustu. Þar ætlum við að gera enn betur en hingað til. Þá höfum við lagt áherslu á að greiða leið þeirra sem vilja framkvæma. Einnig eru enn ótalin þau miklu sóknarfæri sem kom til með að felast í stórskipahöfn, upptökumannvirki við höfnina, stór aukinni háskólastarfsemi, starfsemi atvinnuþróunarfélagsins og svo margt fleira mætti nefna. Atvinnumarkaðurinn í Eyjum á mörg vaxtartækifæri og vænkandi hagur Vestmannaeyjabæjar í viðbót við gerbreyttar aðstæður hvað samgöngur varðar koma til með að gera okkur kleift að styðja betur við bakið á atvinnulífinu.
Nú eru Ægisdyr að leita fjármögnunarmöguleika á jarðgöngum, sérðu fyrir þér að Vestmannaeyjabær muni koma að þeirri fjármögnun ?
Slíkt erindi hefur ekki enn borist. Án þess að fullyrða nokkuð þá sé ég ekki fyrir mér að Vestmannaeyjabær beri hitann og þungan af kostnaði vegna slíkra framkvæmda. Samgöngur og rannsóknir eins og þær sem hér um ræðir eru hluti af rekstri ríkisins. Ég er fyrir mína parta alltaf tilbúinn til að taka við verkefnum frá ríkinu en þeim verður að fylgja fjármagn. Ég teldi það eðlilegt að Háskóla Íslands yrði falið að framkvæma viðkomandi rannsóknir til að auka þekkingu á þessu merkilega jarðfræðilega svæði. Kostnaðurinn á af sjálfsögðu að vera greiddur af ríkinu.