Héraðsdómur Reykjavíkur hefur vísað frá bótakröfu útgerðarfélagsins Dala-Rafns í Vestmanneyjum á hendur Keri og Olís, vegna ólöglegs samráðs félaganna við sölu á eldsneyti. Ekki er hins vegar vísað frá máli Dala-Rafns gegn Skeljungi.
Dala-Rafn taldi að olíufélögin þrjú bæru ábyrgð á tjóni, sem útgerðin hefði orðið fyrir á árunum 1996-2001 vegna missis hagnaðar. Segir í dómnum, að grundvöllur málatilbúnaðarins sé nægilega skýr að því leyti að ljóst er að hann byggi á því að með ólögmætu samráði, sem náð hafi til alls olíumarkaðarins á Íslandi, hafi olíufélögunum tekist að halda olíuverði hærra en ef eðlilegar samkeppnisaðstæður og verðmyndun hefði ríkt á olíumarkaðinum á Íslandi.
Aðalbótakrafa Dala-Rafns hljóðaði upp á tæplega 8,4 milljónir króna og byggðist á samanburði við olíumarkaðinn í Færeyjum. Dómurinn segir, að engin gögn liggi fyrir um verð eða aðstæður í Færeyjum en úr því kunni að verða bætt við meðferð málsins.
Til vara krafðist Dala-Rafn 2,4 milljóna króna í bætur og byggðist sú krafa á sömu kostnaðar- eða framlegðaraðferð og samkeppnisráð notaði við ákvörðun stjórnvaldssekta sem olíufélögin voru beitt.
Dómurinn segir, að kröfur Dala-Rafns séu rökstuddar með útreikningum, sem miði við kaup félagsins og verð hjá Skeljungi. Fyrirtækið hafi átt viðskipti við olíufélögin öll en mismikil að fjárhæðum og eftir tegundum eldsneytis. Ætti að vera unnt að aðgreina viðskiptin og þá hugsanlegt tjón.
Þá segir dómurinn, að ekkert liggi fyrir um að tjón fyrirtækisins hefði orðið það sama hvort sem það hefði verið í viðskiptum við Skeljung eða hin félögin. Því sé óljóst af málatilbúnaði Dala-Rafns hvort fyrir hendi sé skilyrði sameiginlegrar ábyrgðar af hálfu olíufélaganna þriggja um að þau hafi valdið sama tjóni og Skeljungur þannig að um óskipta ábyrgð þeirra gæti verið að ræða. Er kröfum á hendur Keri og Olís því vísað frá vegna vanreifunar.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst