Það var í ýmsu að snúast hjá lögreglunni í sl. viku og um helgina við hefðbundið eftirlit og aðstoð við borgarana.
Að venju hafði lögreglan eftirlit með veitingastöðum bæjarins og þurfti í einu tilviki að hafa afskipti af aðila sem ekki hafði aldur til að vera inn á einum af veitingastöðunum. Þá var lögreglan kölluð til vegna svokallaðs “unglingapartýs” og var ungmennum sem þar voru vísað út og til síns heima.
Tvö eignaspjöll voru tilkynnt til lögreglunnar í vikunni sem leið. Í öðru tilvikinu var um að ræða skemmdir á ljósi í porti við Vinnslustöðina að kvöldi 12. september sl. Voru þarna að verki tveir ungir drengir og telst málið að mestu upplýst. Í hinu tilvikinu var um að ræða rúðubrot í bifreið sem stóð við Hásteinsveg 41. Ekki er vitað hverjir voru að verki í því tilviki en lögreglan hvetur þá sem einhverjar upplýsingar hafa um gerendur að hafa samband.
Einungis einn ökumaður var kærður fyrir brot á umferðarlögum en um var að ræða ungan dreng sem ekki hafði réttindi til að aka léttu bifhjóli, jafnframt sem hann var að reiða farþega á hjólinu, en slíkt er óheimilt á léttu bifhjóli.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst