Töluverður erill var hjá lögreglunni í sl. viku og um helgina og fengu fjórir að gista fangageymslur lögreglu um helgina. Þá voru þrír ökumenn stöðvaðir vegna gruns um ölvun við akstur.
Ein líkamsárás var kærð til lögreglu eftir skemmtana hald helgarinnar og átti árásin sér stað í heimahúsi. Ósætti urðu á milli tveggja íbúa í húsinu sem endað með átökum. Ekki var um alvarlega áverka að ræða.
Fjögur eignaspjöll voru tilkynnt til lögreglu um helgina og áttu þrjú af þeim sér stað sl. laugardag og það fjórða á sunnudag.
Laust fyrir hádegi á laugardaginn var lögreglu tilkynnt um að útidyrahurð í húsi í austurbænum hafi verið sparkað upp og hún skemmd. Þarna hafði orðið einhver ósætti á milli húsráðanda og manns sem var þar gestkomandi. Málið leystist hins vegar með aðkomu lögreglu að því.
Þá var lögreglu tilkynnt um skemmdir á tveimur bifreiðum er stóðu við Hamarsskóla á laugardagsmorgun en hliðarspeglar á bifreiðunum höfðu verið skemmdir. Ekki er vitað hver eða hverjir þarna voru að verki og hvetur lögreglan þá sem einhverjar upplýsingar hafa um það að hafa samband.
Laust upp úr hádegi á sunnudag var lögreglu tilkynnt um að bifreið hafi verið rispuð sem stóð á Faxastíg en talið er að skemmdarverkið hafi verið framið aðfaranótt sama dags. Ekki er vitað hver þar var að verki og óskar lögreglan eftir því að þeir sem hafa einhverja vitneskju um geranda að hafa samband.
Tveir þjófnaðir voru tilkynntir lögreglu um helgina. Í fyrra tilvikinu var farið inn um glugga í Hamarsskóla þar sem íþróttahópur var í gistingu og rótað í töskum. Ekki var vitað hvort einhverju var stolið.
Í seinna tilvikinu var um að ræða meintan þjófnað á áfengi frá Kaffi Maríu undir kvöld sl. sunnudag, en ekki er ljóst hver það var sem tók áfengið og er málið í rannsókn.
Eitt fíkniefnamál kom upp um helgin en komið var með ætlað tóbaksblandað hass á lögreglustöðina sem fannst í bifreið. Eigandi bifreiðarinnar, sem kom með efnið á lögreglustöðina, vissi ekki hvar það var sem átti efnið.
Tvö slys voru tilkynnt til lögreglunnar í vikunni sem leið. Í fyrra tilvikinu var um að ræða vinnuslys í Eyjaver en þarna hafði maður orðið undir lyftara með annan fótinn. Hann var fluttur á sjúkrahúsið en reyndist óbrotinn.
Um miðjan dag sl. laugardag var lögreglu tilkynnt um slys á svokallaðir “Krossbraut” á nýjahrauni, en þarna hafði maður sem var á krosshjóli fallið af hjólinu og meiðst á baki. Ökumaðurinn var fluttur til Reykjavíkur með sjúkraflugvél til skoðunar. Ekki er vitað hversu alvarleg meiðsl hans eru.
Af umferðarmálum er það að frétt að þrír ökumenn voru stöðvaðir vegna gruns um ölvun við akstur og eru þar með komnir 16 ökumenn á þessu ári sem staðnir hafa verið að ölvun við akstur á móti 11 á sama tíma í fyrra. Hins vegar er um að ræða svipaðan fjölda og árið 2005 en þá höfðu 15 ökumenn verið staðnir að akstri undir áhrifum áfengis um þetta leiti árs.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst