Mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar hafa nú verið kynntar. Það er ótrúlegt hvað einstaka ráðherrar eru ánægðir með þennan gjörning, telja þessar aðgerðir mestu og bestu verk allra tíma í Íslandssögunni, en fólkið sem þarf á aðstoð að halda má éta það sem úti frýs.
Viðhald á opinberum byggingum upp á einn milljarð, bætt fjarskipti, fjármagn í samgöngur, svokölluð flýtimeðferð – þetta er allt einn brandari. 10,5 milljarðar eiga að koma á þremur árum. Auðlindagjald tekið af í að minnsta kosti tvö ár upp á 900 milljónir og á sama tíma geta sægreifar leigt þorskkíló á 240 kr., en geta ekki borgað 90 aura af hverju kílói. Hafnir landsins eiga að fá 750 milljónir. Það hefðu verið alvöru mótvægisaðgerðir að setja allan fisk inn á fiskmarkaði, sem hefði gefið hærri hafnargjöld til allra hafna landsins, hærri útsvör til sveitarfélaganna, hærri
skatt til ríkisins, laun sjómanna hefðu hækkað um 30-40% og smærri fyrirtæki sem ekki eiga veiðiheimildir
eiga þá sömu möguleika og aðgang að auðlindinni, það er að segja fiskinum í sjónum.
Það þarf að stunda meiri rannsóknir á hafinu og lífríki þess, það þarf að styrkja tilraunaveiðar á krabbategundum og ýmsum skeldýrum.
Niðurskurður á veiðiheimildum leiðir miklar hörmungar yfir sjávarbyggðir landsins. Sú staðreynd að það eru margir þorskstofnar við landið þýðir að það þarf að stokka upp stjórn fiskveiða alveg frá grunni og við verðum að nýta alla þorskstofna hringinn í kringum landið. Það er ekki hægt að flytja veiðiheimildir milli landshluta, þá
er verið að ofveiða sums staðar jafnvel og vannýta aðra stofna. Það verður að breyta þessu brjálaða fiskveiðistjórnunarkerfi. Kvótakerfið hefur ekki byggt upp fiskistofnana – skuldir sjávarútvegsins aldrei verið hærri, eða um 300 milljarðar, og þess verður að geta að útflutningstekjur af sjávarútvegi eru ekki nema 130 milljarðar.
Það er hægt að ná miklu meiru upp úr hafinu ef stjórnunin er í lagi og nýtingin rétt. Gengismál skipta miklu máli fyrir sjávarútveginn sem og önnur fyrirtæki í landinu. Atvinnulífið þarf stöðugleika í gengismálum og auðvitað þarf að ræða á opinskáan hátt peningamál þjóðarinnar og aðild að ESB. Ríkisstjórnarflokkarnir virðast ekki ganga í takt í þessum málum frekar en öðrum.
Höfundur er þingmaður Frjálslynda flokksins.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst