Þegar bæjarstjórn Vestmannaeyja samþykkti í sumar að selja Geysi Green Energy hlut sinn í Hitaveitu Suðurnesja, höfðu ýmsir af því áhyggjur að í framhaldinu kynni þjónusta við Eyjamenn að versna og kostnaður að aukast. Sérstaklega var horft til þess að vatnsleiðslur þær sem leiða ferskvatn til okkar ofan af landi eru orðnar lélegar og brýnt að ráðast í endurnýjun þeirra á næstu misserum. Má þannig t.d. benda á færslu hér á blogginu frá því fyrir 3-4 vikum, sem velti upp þeirri spurningu hvort við stefndum í hring og áður en langt um liði yrði veitukerfi bæjarins aftur komið í hendur Eyjamanna.
Bæjarstjórinn okkar blés á allar slíkar vangaveltur og tilkynnti okkur að Hitaveitan væri búin að lofa að leggja nýja leiðslu og það loforð stæði, þrátt fyrir söluna.
Fyrir nokkrum dögum birtist svo frétt á vefmiðli DV þar sem segir að þingmenn Suðurkjördæmis rói nú að því öllum árum að fá ríkið til að greiða 500 milljónir króna fyrir nýja vatnslögn til Vestmannaeyja. Ástæðan er sögð sú að Hitaveitan ráði ekki við að leggja nýja leiðslu nema með því að stórhækka verð á rafmagni og vatni til Eyjamanna.
Það var og. Nú væri gaman að vita frá hverjum bæjarstjórinn okkar hafði þetta loforð um nýja vatnslögn til Eyja og hvort því loforði hafi fylgt einhver skilyrði. Af þessum nýjustu fréttum að dæma hefur því einhver logið að Elliða, því varla færi Elliði að ljúga að okkur. Elliði þarf að upplýsa okkur bæjarbúa um hvað hefur breyst og hvort við megum búast við umtalsverðum hækkunum á rafmagni og hita ef ríkið neitar að borga leiðsluna. Nema hann sé nú þegar að undirbúa stofnun Bæjarveita Vestmannaeyja, sem taki yfir reksturinn á vatnslögninni.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst