Nú er ljóst að leiðindamál hefur komið upp í vali á leikmanni ársins í Landsbankadeild kvenna þar sem gengið var framhjá besta leikmanni Íslandsmótsins, Margréti Láru Viðarsdóttur og Hólmfríður Magnúsdóttir valin besti leikmaðurinn.
Það eru leikmenn liðanna í landsbankadeildinni sem velja besta leikmanninn og fá sendan atkvæðaseðil frá KSÍ. Samkvæmt heimildum Fótbolta.net gengu skilaboð milli leikmanna liðanna í Landsbankadeildinni þess efnis að velja ekki Margréti Láru Viðarsdóttur besta leikmanninn Í Landsbankadeild kvenna. Umræða um þetta fór fram í útvarpsþætti Valtýs Björns Valtýssonar, Mín Skoðun, á Xinu 977 fyrir nokkrum vikum síðan en þá trúði enginn að þetta yrði staðreyndin á lokahófinu í kvöld.
Nú er það orðið ljóst að þau skilaboð hafa borið tilætlaðan árangur og Hólmfríður Magnúsdóttir hampaði verðlaunum fyrir að vera besti leikmaður ársins.
Margrét Lára Viðarsdóttir bar höfuð og herðar yfir aðra leikmenn í Landsbankadeild kvenna í sumar og undir eðlilegum kringumstæðum hefði hún verið valin besti leikmaðurinn. Hún skoraði 38 mörk í 16 leikjum og setti þar með markamet í efstu deild kvenna frá upphafi, bætti met sitt frá síðasta ári.
Nú má ekki draga úr góðri frammistöðu Hólmfríðar Magnúsdóttur sem skoraði 15 mörk í 13 leikum en þó er alveg ljóst að frammistaða Margrétar Láru var betri í sumar og er það samdóma álit flestra sem fylgjast með íslenskri knattspyrnu. Hólmfríður var ekki valin besti leikmaður KR á lokahófi félagsins í haust heldur Olga Færseth.
Ekki er ljóst hvort KSÍ geri breytingar á vali leikmanna ársins í kjölfar þessa eða hvers vegna meirihluti íslenskra knattspyrnukvenna tók þessa ákvörðun sem verður ekki til neins nema bera skugga á þessi verðlaun
Ath
Þess ber að gera að Margrét Lára Viðarsdóttir var starfsmaður Fótbolta.net sumarið 2007. Forsendur greinarinnar tengjast ekki því ekki á neinn hátt.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst