HERMANN Hreiðarsson, leikmaður Portsmouth og íslenska landsliðsins í knattspyrnu, vonast eftir því að Manchester United nái að sigra Arsenal á Emirates-leikvanginum í London í dag. Sú von Hermanns á sér 27 ára gamla sögu en hann sagði við Morgunblaðið að búast mætti við stórskemmtilegri viðureign tveggja bestu liða ensku úrvalsdeildarinnar þar sem nánast væri ógjörlegt að spá um úrslitin.
“Málið er að ég hef haldið með Manchester United frá sex ára aldri. Þá gaf frændi minn mér Manchester-trefil, og í staðinn varð ég að halda með United. Það þurfti ekki meira til og ég hef haldið með liðinu síðan,” sagði Hermann, sem oft hefur þurft að leggja stuðninginn við Manchester United til hliðar undanfarinn áratug því hann hefur margsinnis spilað gegn uppáhaldsliðinu í úrvalsdeildinni – síðast með Portsmouth í haust. Hann telur að trefillinn góði sé reyndar löngu glataður.
Tvö langskemmtilegustu liðin í dag
“Ef ég ætti að svara þessu sem Manchester-maður myndi ég segja að þeir væru of sterkir fyrir Arsenal. Það er hins vegar dálítil óskhyggja því lið Arsenal hefur leikið frábærlega og sýnt mikinn stöðugleika það sem af er tímabilinu. Það hafa verið endalausar vangaveltur um hvort Arsenal geti haldið svona áfram út tímabilið, þegar vellirnir fara að versna, en þeir eru einfaldlega búnir að sýna að þeir eru alveg nógu góðir. Með þessu áframhaldi vinna þeir deildina, en það sama má að sjálfsögðu segja um Manchester United sem hefur haldið sínu striki frá því í fyrra, sérstaklega síðustu vikurnar þar sem liðið hefur raðað inn mörkum, og getur á sama hátt hæglega unnið deildina aftur.
Arsenal og Manchester United eru einfaldlega tvö sterkustu og langskemmtilegustu liðin í deildinni. Chelsea er vissulega það lið sem helst getur ógnað þeim og er afar traust og þétt lið, en spilar ekki nærri því eins góðan fótbolta og hin tvö,” sagði Hermann.
Manchester sama vélin og undanfarin ár
Portsmouth lék gegn Manchester United á Fratton Park í annarri umferð deildarinnar, hinn 15. ágúst, og sá leikur endaði 1:1. Hermann var þar í byrjunarliði Portsmouth eins og í öllum hinum deildaleikjum tímabilsins fram að deginum í dag.
“Manchester er sama vélin og mörg undanfarin ár en við veittum þeim mjög harða keppni í þessum leik, sem gat endað á hvorn veginn sem var.”
Rúmum hálfum mánuði síðar var Hermann í liði Portsmouth sem beið lægri hlut fyrir Arsenal á Emirates, 3:1.
Unun að horfa á Arsenal
“Við áttum alveg möguleika á móti þeim en létum þá ekki hafa nógu mikið fyrir sigrinum því mörkin voru ódýr. Þeir skoruðu eftir hornspyrnu og aukaspyrnu, en auðvitað voru þeir mjög góðir í leiknum. Við gerðum þeim fullauðvelt fyrir. Arsenal hefur bætt sig talsvert síðan í fyrra, án þess að eyða miklum peningum. Arsene Wenger virðist alltaf geta fundið unga og ferska stráka í sitt lið og í vetur er búin að vera hrein unun að horfa á þá spila sinn stórskemmtilega fótbolta.”
Hermann kvaðst fyrst og fremst vonast eftir skemmtilegum leik tveggja hörkuliða á Emirates í dag. “Já, ef hann verður eins og Liverpool gegn Arsenal á Anfield um daginn, þá verður þetta í góðu lagi. Það var frábær leikur og mikill hraði. Arsenal var yfirburðalið í þeim leik, lenti undir en leikmenn liðsins sýndu og sönnuðu hvað þeir geta á útivelli á móti Liverpool – á Anfield. Þeir tóku leikinn gjörsamlega í sínar hendur,” sagði Hermann Hreiðarsson.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst