Á aðalfundum SASS og Atvinnuþróunarfélags Suðurlands var samþykkt að sameina SASS og AÞS og verkefni sem AÞS hefur haft með höndum verði sinnt innan vébanda SASS. Haldnir verða aukaðalfundir á næstu vikum þar sem gengið verður formlega frá sameiningunni.
Hægt er að lesa allar ályktanir frá ársþingi SASS hér að neðan.
Ályktanir ársþings Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga
haldið á Kirkjubæjarklaustri +1. og 2. nóvember 2007
Samgöngumál
Suðurlandsvegur
Ársþing SASS 2007 fagnar þeirri samstöðu sem náðst hefur meðal alþingismanna, ríkistjórnar og íslensku þjóðarinnar allrar um að tvöfalda Suðurlandsveg milli Selfoss og Reykjavíkur. Samgöngunefnd leggur áherslu á að sveitarfélögin sem í hlut eiga ljúki skipulagsvinnu vegna vegarins sem fyrst og eigi síðar en um áramót 2007/2008. Jafnframt telur nefndin skynsamlegast að verkið verði unnið í einum áfanga og verkinu verði lokið árið 2011.
Samgöngur milli Vestmannaeyja og Bakka
Ársþing SASS 2007 fagnar því að nú skuli hafa verið tekin ákvörðun um að stórefla samgöngur milli Vestmannaeyja og Suðurlands með siglingum milli Vestmannaeyja og Bakkafjöru. Samgöngunefndin telur nauðsynlegt að hafnarmannvirkið í Bakkafjöru verði þannig úr garði gert að frátafir í ferjusiglingum verði ekki meiri en nú er í siglingum Herjólfs til Þorlákshafnar. Þá vill ársþing SASS leggja áherslu á mikilvægi þess að ferjan og þjónusta hennar taki mið af þeim tilgangi að styrkja og stækka atvinnusvæði á Suðurlandi og gera fólki kleift að sækja vinnu og þjónustu milli þeirra svæða sem nú er verið að tengja saman. Samgöngunefnd leggur áherslu á að staðið verði við þá yfirlýsingu að verklok verði vorið 2010 eins og boðað hefur verið.
Suðurstrandarvegur
Ársþing SASS 2007 fagnar því að loks skuli nú hylla undir framkvæmdir við Suðurstrandarveg. Sú framkvæmd á eftir að styrkja og stækka atvinnusvæði á Suðurlandi og tengja suðurkjördæmi á öflugri hátt en áður hefur verið. Lögð er áhersla á að staðið verði við þá yfirlýsingu að verklok verði árið 2010 eins og boðað hefur verið.
Gjábakkavegur
Ársþing SASS 2007 leggur áherslu á að fyrirheit um lagningu Gjábakkavegar nái fram að ganga og ekki verði frekari tafir á þessari mikilvægu framkvæmd sem auðveldar samgöngur um uppsveitir Árnessýslu.
Brú yfir Hvítá
Ársþing SASS 2007 hvetur til þess að sem fyrst verði ráðist í framkvæmdir við nýja brú yfir Hvítá við Bræðratungu. Framkvæmd þessi verður mikil lyftistöng fyrir uppsveitir Árnessýslu og þá ekki sýst í atvinnulegu samhengi.
Jarðgöng gegnum Reynisfjall
Ársþing SASS 2007 vekur athygli á því að vegurinn fyrir Reynisfjall er einn aðal faratálmi á þjóðvegi 1 allt austur á land og þar er ein af hættulegasti kafli í vegakerfinu. Veruleg samgöngubót væri því að gerð slíkra gangna. Nauðsynlegt er að koma framkvæmdinni inn í samgönguáætlun.
Uppbygging tengi- og safnvega
Ársþing SASS 2007 telur ástand tengi- og safnvega víðast hvar algjörlega óviðunandi. Umferð um þessa vegi hefur stóraukist á undanförnum árum án þess að þeirri þróun hafi verið fylgt eftir með varanlegri uppbyggingu veganna. Þannig hafa einungis um 30% tengivega á Suðurlandi verði lagðir varanlegu slitlagi. Mikilvægt er að gert verði átak í uppbyggingu tengivega á Suðurlandi og lagt til að framlög til þeirra verði fjórfölduð þannig að ljúka megi uppbyggingu þeirra á næstu 20 árum. Enn fremur er lagt til að einbreiðar brýr verði með öllu aflagðar.
Fjarskipti
Ársþing SASS 2007 vekur athygli á því að í nútíma samfélagi eru öflug fjarskipti nauðsynleg forsenda lífvænlegrar byggðar og í raun jafn mikilvæg og greiðar hefðbundnar samgöngur. Þá er einn mikilvægast öryggisþáttur í dreifbýli aðgangur að farsímakerfi. Því er nauðsynlegt að byggja upp betra GSM dreifikerfi til að ráða bót á þessum annmörkum.
Þá telur ársþing SASS einnig mikilvægt að byggt verði upp háhraða gagnaflutningskerfi en tölvunotkun með tilheyrandi gagnaflutningi er orðin eitt af lykilatriðum nútíma atvinnuhátta.
Millilandaflugvöllur
Ársþing SASS 2007 hvetur til þess að hafin verði undirbúningur að gerð alþjóðaflugvellar á Suðurlandi. Slíkur flugvöllur mun þjóna hlutverki varaflugvallar fyrir alþjóðlega flugvöllinn á Reykjanesi um leið og þar væri rekin lággjaldaflugvöllur að erlendri fyrirmynd. Aðstæður á Suðurlandi er kjörnar í ljósi nálægðar við öflugustu ferðaþjónustusvæði á landinu.
Umhverfis- og skipulagsmál
Skipulagsmál
Ársþing SASS 2007 vill beina þeim eindregnu tilmælum til sveitarfélaga á Suðurlandi að hafa samráð og samvinnu sín á milli við gerð skipulagsáætlana.
Með fjölbreyttari búsetuháttum og þéttari frístundabyggð er enn frekari þörf á að atriði er varða neysluvatnsöflun, vatnsvernd og fráveitumál liggi fyrir við gerð skipulags.
Aðgangur að hreinu og nægu vatni verður að vera tryggður fyrirfram ásamt verndarsvæði kringum vatnsból. Horfa skal til meginreglunnar um að koma á sameiginlegri fráveitu m.a. í frístundabyggð og gera grein fyrir hreinsimannvirkjum á skipulagsuppdráttum.
Ársþing SASS beinir því til skipulagsnefnda sveitarfélaga að samþykkja ekki skipulagstillögur nema fyrir liggi upplýsingar um gæði neysluvatns og að bæði vatnsvernd og hreinsimannvirki komi fram á uppdrætti.
Einnig eru sveitarfélögin hvött til að nota það stjórntæki sitt, skipulagsmálin, til enn frekari stefnumótunar byggðarlaga á Suðurlandi og þannig setja setja markvissa stefnu um landnotkun.
Neysluvatnsmál
Ársþing SASS 2007 hvetur sveitarfélög til frekari samvinnu um öflun og dreifingu neysluvatns. Ennfremur er hvatt til að sveitarfélögin hugi í ríkara mæli að framtíðarvatnsbólum og vatnsvernd kringum þau. Með því móti er hægt, til framtíðar, að losa verðmætt land undan núgildandi vatnsvernd um leið og tryggt er heilnæmt og öruggt neysluvatn annars staðar frá. Það á að vera réttur hvers einstaklings að hafa aðgengi að góðu og heilnæmu vatni óháð búsetu hans. Nauðsynlegt er fyrir sveitarfélög að hafa samvinnu um þessi mál enda auðlindir vatns misaðgengilegar eftir búsetu. Gott neysluvatn er verðmæti og grunnur búsetu, þróun menningar og atvinnu hvar sem er og forsenda blómlegrar byggðar.
Aukin endurvinnsla
Í ljósi stóraukins kostnaðar við meðhöndlun úrgangs á næstu árum hvetur ársþing SASS 2007 aðildarsveitarfélögin að koma á hvata til að draga úr úrgangi og koma honum í endurvinnslufarveg. Ársþingið bendir á að að ein leið til hvatningar er að innheimta raunkostnað við meðhöndlun úrgangsins.
Atvinnumál
Fjölbreytni atvinnulífs
Ársþing SASS 2007 leggur áherslu á áframhaldandi uppbyggingu fjölbreytts atvinnulífs á Suðurlandi. Fjölbreytt atvinnulíf er styrkasta stoðin undir öflugt atvinnulíf í fjórðungnum öllum, hvort sem er á vaxtarsvæðum eða svæðum sem glíma við samdrátt. Fjölbreytt atvinnulíf er best til að verja atvinnulíf svæðisins gegn tímabundnum eða svæðisbundnum skakkaföllum.
Auðlindanýting og orkufrekur iðnaður
Ársþing SASS 2007leggur áherslu á að sunnlenskar orkulindir verði nýttar til atvinnuuppbyggingar á Suðurlandi. Við auðlindanýtingu á Suðurlandi verði skaðleg umhverfisáhrif lágmörkuð, s.s. með orkuflutningi um sem skemmstan veg. Einnig að auðlindanýting í fjórðungnum og tengd atvinnusköpun verði til hagsbóta fyrir sunnlenskt samfélag í heild.
Niðurskurður aflaheimilda
Ársþing SASS 2007 tekur undir þær ályktanir sem stjórnir SASS og Atvinnuþróunarfélags Suðurlands hafa sent frá sér um málið. Þingið hvetur til þess að lögð verði áhersla á að frekari mótvægisaðgerðir stjórnvalda, beinist sérstaklega að þeim samfélagshópum sem fyrir mestum skaða verða. Áréttað er að mótvægisaðgerðir á einu svæði mega ekki vera á kostnað annarra svæða eða annarra atvinnugreina.
Háskólamál
Ársþing SASS 2007 fagnar þeim skrefum sem náðst hafa í undirbúningi stofnunar Háskólafélags Suðurlands og þeirri ábyrgð sem sunnlensk sveitarfélög hafa axlað vegna uppbyggingar háskólastarfs á Suðurlandi. Stjórnvöld eru hvött til beinnar þátttöku í eflingu háskólamenntunar á svæðinu, s.s. með aðkomu menntamálayfirvalda og fjárveitingavaldsins. Minnt er á mikilvægi háskólastarfs í atvinnu- og búsetulegu tilliti.
Vaxtarsamningur Suðurlands og Vestmannaeyja
Ársþing SASS 2007 fagnar þeim áföngum sem náðst hafa í atvinnu- og samfélagsuppbyggingu með Vaxtarsamningi Suðurlands og Vestmannaeyja. Hvatt er til þess að verkefnið verði áfram vel kynnt fyrir sunnlendingum, til að hámarka megi þann árangur sem ná má með verkefninu.
Ferjuhöfn í Bakkafjöru
Ársþing SASS 2007 fagnar áformum um uppbyggingu ferjuhafnar í Bakkafjöru og bendir á þau mikilvægu áhrif sem þær samgöngubætur munu hafa á eflingu ferðaþjónustu á Suðurlandi öllu. Áréttað er að ferjusamgöngur um Bakkafjöru verði öruggar, áreiðanlegar og tíðar til að þær nái þeim samgöngulega ávinningi sem þeim er ætlað. Ferjuhöfn er talin mikilvægur þáttur í nauðsynlegri stækkun atvinnusvæðis í miðju landsfjórðungsins.
Stórskipahöfn í Þorlákshöfn
Ársþing SASS 2007 telur að stórskipahöfn í Þorlákshöfn geti orðið mikilvægt tækifæri í atvinnuuppbyggingu Suðurlands. Með henni megi stytta siglingartíma stórskipa milli Íslands og Evrópu og ná fram verulegri þjóðhagslegri hagræðingu. Stórskipahöfn í Þorlákshöfn er talin styðja vel við uppbyggingu á stóriðju á Suðurlandi.
Suðurlandsvegur
Ársþing SASS 2007 fagnar ákvörðun stjórnvalda um hraða uppbyggingu tvöfalds Suðurlandsvegar. Lögð er áhersla á að horft verði til atvinnulífs á Suðurlandi þegar hugað verður að skipulagsmálum vegna framkvæmdarinnar, þ.e. að veglagningin taki mið af hagsmunum þjónustufyrirtækja á svæðinu.
Kynningarmál
Ársþing SASS 2007 hvetur til þess að lögð verði aukin áhersla á jákvæða kynningu á Suðurlandi sem áhugaverðu og fjölbreyttu búsetu- og atvinnusvæði.
Rafrænar samgöngur
Ársþing SASS 2007 leggur áherslu á mikilvægi eflingar rafrænna samgangna, sem nauðsynlegan þátt í grunngerð öflugs atvinnulífs. Ennfremur mikilvægi rafrænna samgangna í því að auka fjölbreytni á öllum sviðum í sunnlensku samfélagi í nútíð og framtíð.
Jöfnun rekstrarumhverfis
Ársþing SASS 2007 hvetur hið opinbera til að huga vel að jöfnun rekstrarumhverfis á Suðurlandi, að svæðum eða landshlutum sé ekki mismunað hvað varðar samkeppnisstöðu rekstraraðila, s.s með misjöfnum flutningskostnaði, misjafnri grunngerð eða þjónustu.
Málefni fangelsisins á Litla Hrauni
Ársþing SASS 2007 hvetur til þess að verðmæt sérþekking og áratuga reynsla Sunnlendinga á fangelsismálum verði treyst til framtíðar með frekari uppbyggingu á Litla Hrauni.
Matvælastofnun ríkisins
Ársþing SASS 2007 fagnar þeirri áhvorðun að staðsetningu nýrri stofnun sem fara á með málefni matvæla, hafi verið valinn staður.
Mennta- og menningarmál
Menntaverðlaun Suðurlands
Ársþing SASS 2007 samþykkir að koma á fót “Menntaverðlaunum Suðurlands”. Árlega verði veitt sérstök verðlaun til þeirra sem þykja hafa skarað fram úr í að efla menntun í leik- og grunnskólum á Suðurlandi.
Verðlaun verða veitt í tveimur flokkum, þ.e,
a. Skólum
b. Kennurum og öðru starfsfólki
Óskað verði eftir rökstuddum tilnefningum frá foreldrum, nemendum, kennurum og öðrum áhugamönnum um eflingu menntunar.
Mennta- og menningarmálanefnd SASS sér um veitingu verðlaunanna, setningu starfsreglna og öðru sem lýtur að framkvæmd verðlaunanna. Stefnt skal að því að veita verðlaunin fyrst árið 2008.
Heiðurslistakerfi
Ársþing SASS 2007 leggur til að skólanefndir grunnskóla á Suðurlandi skoði kosti þess og galla að taka upp heiðurslistakerfi. Markmið með slíku kerfi verði að efla sjálfsvitund nemenda og menntun almennt, auka áhuga nemenda og hvetja þá í fjölbreyttu námi. Lögð yrði áhersla á sem mesta fjölbreytni og að viðurkenningar til nemenda yrðu ekki bundnar við hefðbundnar námsgreinar. Einnig er mikilvægt að hver skóli fái að móta sínar áherslur.
Skólastefna
Ársþing SASS 2007 hvetur öll sveitarfélög á Suðurlandi til að móta sér heildstæða skólastefnu, sbr. tillögur sem liggja fyrir frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
Þjónusta RÚV
Ársþing SASS 2007 átelur þá skerðingu sem orðið hefur á þjónustu RÚV á Suðurlandi. Fundurinn beinir því til stjórnar Ríkisútvarpsins ohf. að endurskoða þessa ákvörðun.
Greinargerð:
Nýstofnað svæðisútvarp fyrir Suðurland hefur verið lagt niður og hætt starfssemi. Frá íbúum hefur því verið tekin umfjöllun um málefni sem standa þeim nærri í öflugu dreifikerfi ákveðinn tíma á dag. Slíkt felur í sér illskiljanlega mismunun milli landshluta.
Verknámshús við Fjölbrautaskóla Suðurlands
Ársþing SASS 2007 beinir því til ríkisvaldsins að fjármagn verði tryggt til að hefja megi hönnun og í framhaldinu framkvæmdir við byggingu verknámshúss við Fjölbrautarskóla Suðurlands.
Velferðarmál
Samræming og þróun verkferla
Til að tryggja að hagsmunir barna séu ávallt í fyrirrúmi beinir aðalfundur SASS 2007 því til stjórnar SASS að hafa forgöngu um samræmingu og þróun verkferla milli skólaþjónustu, félagsþjónustu, heilsugæslu og svæðisskrifstofu um málefni fatlaðra.
Heilbrigðisstofunun Suðurlands
Ársþing SASS 2007 krefst þess Fjármálaráðuneyti og Alþingi tryggi nú þegar fjármagn til að ljúka framkvæmdum við nýbyggingu Heilbrigðisstofnunar Suðurlands þannig að þeim verði lokið 2008. Aðeins vantar rúmlega 300 milljónir upp að fullnaðarfjármögnun sé tryggð til verksins. Stjórnvöld eru hvött til að tryggja nægjanlegt rekstrarfé til starfseminnar sem og að mæta fjárhagsvanda stofnunarinnar með auknu fjárframlagi.
Heildræn einstaklingsmiðuð þjónusta
Ársþing SASS 2007 leggur til að stjórn SASS leiti eftir samstarfi við opinberar stofnanir á svæðinu sem koma að umönnun og stuðningi við íbúa um að einfalda þjónustukerfið með það að markmiði að samþætta þjónustuna. Horft skal til starfshóps Heilbrigðisráðuneytis og Velferðarráðs Reykjavíkurborgar sem vinnur að samþættingu félagslegrar heimaþjónustu og heimahjúkrunar. Lagt er til að komið verði á þverfaglegu samstarfi við ríkisstofnanir á sviði heilbrigðis- og félagsþjónustu á svæðinu og vinna að samræmingu og þróun verkferla. Markmiðið skal vera heildræn og einstaklingsmiðuð þjónusta sem tekur mið af þörfum einstaklingsins.
Kortlagning þjónustuþarfar aldraðara- „Heilsueflandi heimsóknir”
Ársþing SASS 2007 leggur til að SASS beiti sér fyrir, í samstarfi við Heilbrigðisstofnun Suðurlands, að komið verði á heimsóknum til aldraðra þar sem mat er lagt á þjónustuþarfir. Í samfélagi þar sem öldruðum fer fjölgandi er mikilvægt að stofnanir sem koma að þjónustu við þennan hóp geri sér grein fyrir umfangi þjónustuþarfar. Skulu heimsóknirnar einnig hafa forvarnargildi ásamt því að vera kynning á þeirri þjónustu sem til boða stendur.
Flutningur málefna aldraðra frá ríki.
Ársþing SASS 2007 fagnar því að í gangi sé greiningar og undirbúningsvinna við að færa málefni um þjónustu við aldraða og fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga. Ársþingið leggur hins vegar áherslu á að gætt verði að málefni einstakra hópa verði ekki færð ein og sér frá heilsugæslustöðvunum. Slíkt væri ekki í samræmi við áherslur um heildræna þjónustu
Sálfræðiþjónusta við börn
Ársþing SASS 2007 krefst þess að heilbrigðisráðuneytið veiti fjármagni í aukið stöðugildi sálfræðings við HSU. Óviðunandi er að börn í þörf fyrir sálfræðimeðferð þurfi að bíða í fjóra mánuði eftir meðferðarúrræði.
Þjónusta við heilabilaða.
Ársþing SASS 2007 hvetur aðildarsveitarfélög SASS að leita leiða til að koma málefnum heilabilaðra í ásættanlegt horft meðal annars með opnun dagdvalarrýma. Gera verður þá kröfu til ríkisvaldsins að veita fjármagn í samræmi við þjónustuþyngd og að gætt verði jafnræðis milli landshluta hvað þetta varðar.
Málefni innflytjenda.
Ársþing SASS 2007 hvetur sveitarfélög á Suðurlandi til að mynda sér stefnu í málefnum innflytjenda þar sem höfuðáhersla verður lögð á fræðslu, upplýsingagjöf og aðlögun. Einnig eru sveitarfélög hvött til að heimasíður þeirra verði gerðar aðgengilegar á erlendum tungumálum.
Málefni geðfatlaðra
Ársþing SASS 2007 krefst að heilbrigðisráðuneytið leggi fjármagn í að koma á skipulagðri geðheilbrigðisþjónustu á svæðinu. Skorað er á þingmenn Suðurlands að beita sér fyrir uppbyggingu geðheilbrigðisþjónustu íbúum Suðurlands til hagsbóta. Geðheilbrigðisþjónusta er ein af grunnstoðum heilbrigðiskerfisins og þarf að vera aðgengileg fólki í heimabyggð. Það er óviðunandi að þeir íbúar á Suðurlandi sem eiga við geðsjúkdóma að stríða þurfi að sækja alla geðþjónustu til Reykjavíkur.
Jafnræði milli svæða
Ársþing SASS 2007 hvetur alla aðila sem koma að velferðarmálum á Suðurlandi að leitast við í hvívetna að jafnræði til þjónustu ríki á milli sveitarfélaga.
Til að geta skoðað nánari upplýsingar þarftu að vera áskrifandi og vera skráður inn.
Til að geta skoðað nánari upplýsingar þarftu að vera áskrifandi og vera skráður inn.
Til að geta skoðað nánari upplýsingar þarftu að vera áskrifandi og vera skráður inn.
Til að geta skoðað nánari upplýsingar þarftu að vera áskrifandi og vera skráður inn.
Til að geta skoðað nánari upplýsingar þarftu að vera áskrifandi og vera skráður inn.
Til að geta skoðað nánari upplýsingar þarftu að vera áskrifandi og vera skráður inn.
Til að geta skoðað nánari upplýsingar þarftu að vera áskrifandi og vera skráður inn.
Til að geta skoðað nánari upplýsingar þarftu að vera áskrifandi og vera skráður inn.
Til að geta skoðað nánari upplýsingar þarftu að vera áskrifandi og vera skráður inn.
Til að geta skoðað nánari upplýsingar þarftu að vera áskrifandi og vera skráður inn.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst