Andri Ólafsson fer í janúar næstkomandi til æfinga hjá sænska 1. deildarliðinu Enköping.
Þetta sagði hann í samtali við Vísi en hann greindi einnig frá því að Enköping hafi einnig viljað fá hann til reynslu í sumar en að þá hafi ÍBV neitað beiðninni.
Andri gekkst í síðustu viku undir aðgerð á nára og verður væntanlega frá æfingum næsta mánuðinn að minnsta kosti vegna þessa.
Samningur Andra við ÍBV rann út eftir tímabilið og er óljóst hvar hann spilar næstu leiktíð.
„Ég hef verið að ræða við ÍBV en það er ekkert ákveðið. Mig langar auðvitað að spila í efstu deild,” sagði hann.
Andri flutti til Reykjavíkur í fyrra vegna náms og gæti það einnig haft áhrif á ákvörðun hans.
En þá gæti einnig verið að hann fari til Svíþjóðar. „Ef það gengur vel hjá Enköping er aldrei að vita. En það er ekki spurning að ég færi þangað ef tækifæri gæfist til þess.”
Fyrir fáeinum vikum var liðsfélagi hans hjá ÍBV, Atli Heimisson, til reynslu hjá sama liði og skoraði til að mynda mark í æfingaleik.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst