Við lendum öll í einhverju á lífsleiðinni. Stundum kýlir lífið okkur niður og við lendum í slysum, veikindum eða áföllum sem hefur áhrif á vinnugetuna. Sumir ná að „girða sig í brók“ og gera það sem þarf til að koma sér út á vinnumarkaðinn aftur. Fyrir aðra er það mun erfiðara og þá er nú ótrúlega gott að búa í velferðarkerfi sem tryggir mannsæmandi lífsgæði og möguleikann á betra lífi. Eða þú veist, það var allavega þannig…
Við Íslendingar erum ótrúlega dugleg og vinnusöm þjóð. Sjálfsagt best í heimi þar eins og annarsstaðar. Í hrokanum yfir því að vera best í heimi, erum við líka dugleg að líta niður á þá sem ekki geta unnið og þyggja bætur af ríki og sveitafélögum. Af því að „þetta fólk“ kostar okkur u.þ.b. 55 milljarða á ári. Það eru gríðarlega miklir skattapeningar. Þess vegna er kannski ekkert skrýtið þó margir pirrist yfir þeim sem fá bara að leika sér og „spóka sig um“ á kostnað okkar hinna!
Ég get sagt þér leyndarmál – en bara ef þú lofar að segja engum frá! Ég skammast mín nefnilega ennþá dáldið mikið fyrir það í dag. Þegar ég byrjaði í þessari vinnu var ég líka full af fordómum út í þessa iðjuleysingja og þennan aumingjahátt að drulla sér bara ekki aftur í vinnu. En sem betur fer hef ég í gegnum árin fengið að kynnast ótrúlega mikið af dásamlegu, sterku og hörkuduglegu fólki sem hefur kennt mér, að það er saga á bak við hvern einasta einstakling og það er góð ástæða fyrir því af hverju hann er ekki í vinnu. Að þetta hafi ekkert með viljann að gera, því allir sem hafa komið til okkar hafa sko haft allan þann vilja sem hægt er að biðja um. Bara ekki alltaf getuna.
Ég á ennþá eftir að hitta þann öryrkja sem ekki væri til í að hafa fulla heilsu til að vera á vinnumarkaði eins og þú og ég. Værir þú til í að skipta á því sem þú hefur núna; vinnunni þinni, heilsunni og lífsgæðunum fyrir það líf sem öryrkjar hafa? Að geta ekki sofið, unnið eða sinnt börnum og heimili vegna verkja? Værir þú til í að skipta á gleðinni þinni og þeirri „draumastöðu“ að fá að vera aleinn heima í vonleysi, þunglyndi og kvíða? Og finnst þér það ekki vera brjálæðislega spennandi tilhugsun að fá að skipta á félagslífinu þínu og því að hýrast heima með þá skömm að vera „baggi“ á þjóðfélaginu? Þetta allt og margt, margt fleira færðu fyrir heilar 192.000 krónur á mánuði – uuu… já, auk heilsunnar þinnar. Persónulega finnst mér ekkert heillandi við þessi skipti.
Það fara um 55 milljarðar króna á ári í örorkubætur. Það er fyrir utan það sem sveitafélögin eru að borga í sína framfærslu og Vinnumálastofnun til atvinnulausra. Það er líka fyrir utan það sem ríkið er að borga í endurhæfingarlífeyri. Hrikalega væri nú bara sniðugt að búa til kerfi til að þess að reyna að koma þessu fólki aftur í vinnu, þannig að þá kannski kæmi skattapeningur inn í staðinn fyrir að leka út.
Hey! Veistu hvað! Þetta kerfi er til! Það bara gildir ekki lengur fyrir einstaklinga á örorkubótum, atvinnuleysisbótum og þeim sem eru á framfærslu sveitafélaganna. Ótrúlega sniðugt kerfi samt!
Hingað til hefur fólk getað leitað í starfsendurhæfingu til að fá aðstoð til að komast aftur í vinnu. Markmiðið hjá okkur er að gefa þessum einstaklingum tækifæri til að skapa sér mannsæmandi líf. Líf sem þau geta verið hreykin af og líf sem gefur þeim tilgang til þess að vakna á morgnanna.
Ríkið sá um að fjármagna starfsendurhæfingarstöðvarnar til ársins 2013 og þá tók VIRK, Starfsendurhæfingarsjóður við. VIRK er ætlað að fjármagna atvinnuþátttöku einstaklinga með skerta starfsgetu. Í þann sjóð rennur hluti af heildartekjum allra launþega í landinu og þangað borga líka lífeyrissjóðirnir. Ríkið átti svo að greiða sinn hluta til að tryggja rétt þeirra sem eru á örorkubótum, á framfærslu sveitarfélaganna, á atvinnuleysisbótum og á sjúkrasjóðum stéttarfélaganna, til starfsendurhæfingar.
Ríkið ákvað hins vegar að borga ekki sinn hluta og þar með datt sú trygging niður.
VIRK ákvað svo að endurnýja ekki samninginn sinn við Starfsendurhæfingu Vestmannaeyja þrátt fyrir að lagalega beri þeim að fjármagna viðeigandi úrræði, aðgerðir og verkefni á sviði atvinnutengdrar starfsendurhæfingar og að að þjónusta sé skipulögð þannig að einstaklingar sem hafi þörf fyrir atvinnutengda starfsendurhæfingu fái þjónustuna sem næst heimabyggð sinni (Lög nr. 60 25. júní 2012).
En að vísu er þessi þjónusta aðeins fyrir þá sem eru „tryggðir“. Þetta gerir það að verkum að u.þ.b. 350 einstaklingar í Vestmannaeyjum eiga ekki lengur möguleikann á því að fara aftur út á vinnumarkaðinn með aðstoð starfsendurhæfingarinnar því þeir falla ekki lengur undir þessa „tryggingu“. Þetta eru þeir sem þurfa hvað mest á þjónustu okkar að halda, en um leið þeir sem minnst láta í sér heyra. Af því að það er enginn sérstaklega stoltur af því að vera álitinn „baggi á samfélaginu.“
Svo ég ákvað að taka mér það bessaleyfi að tala fyrir hönd þeirra 350 einstaklinga sem hvorki eiga lengur rétt á, né möguleikann til starfstengdrar endurhæfingar í minni heimabyggð. Kæru Eygló Harðardóttir félagsmálaráðherra, Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra og Vigdís Jónsdóttir, framkvæmdastjóri VIRK. Væruð þið ekki bara til í að finna lausn á þessum málum, svo allir Íslendingar eigi jafnan rétt á atvinnutengdri endurhæfingu og hafi sömu tækifæri til að skapa sér mannssæmandi líf? Til þess að fólkið mitt hafi tækifæri til að nýta sér þessa þjónustu í heimabyggð. Væruð þið kannski líka til í að setja ykkur augnablik í spor fólksins míns og ímynda ykkur hvernig það er að vera fastur í gildru fátæktar, vonleysis og tilgangsleysis og sjá ekki möguleikann út? Væruð þið að lokum kannski til í að setja hagsmuni fólksins ofar ykkar eigin og finna lausn fyrir alla þá tugþúsundi einstaklinga á Íslandi sem eiga ekki lengur rétt á þjónustu hjá VIRK? Ég veit fyrir víst að fólkið mitt yrði ykkur afskaplega þakklátt.
Með fyrirfram þökk,
Hrefna Óskarsdóttir, ráðgjafi og forstöðumaður Starfsorku,
Starfsendurhæfingar Vestmannaeyja.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst