Á vef Veðurstofunnar kemur fram að fyrstu 9 mánuðir ársins 2014 hafi verið jafnhlýir og hlýjast hefur verið áður en það var árið 2003. Í september var meðalhitinn á Stórhöfða 9,3 stig. Hinsvegar var úrkoman 230,4 mm á Stórhöfða þann mánuð, eða 76 prósent umfram meðallag. Á Stórhöfða er ekki lengur veðurathugunarmaður og því eru upplýsingar um veðrið þar eingöngu af sjálfvirkum mælum. Sólskinsstundir eru t.d. ekki mældar þar lengur né skýjafar. Stórhöfði var lengi vel ein helsta veðurathugunarstöð landsins, en nú er hún Snorrabúð stekkur. Einhverra hluta vegna þykir þessi veðurathugunarstöð ekki lengur merkileg og henni sinnt í samræmi við það.