Á fyrstu tíu mánuðum ársins er útflutningsverðmæti sjávarafurða komið í rúma 287 milljarða króna. Það er um 3% samdráttur miðað við sama tímabil í fyrra, reiknað á föstu gengi. Vart þarf að nefna að þennan samdrátt má að langstærstum hluta skrifa á loðnubrest í ár. Að loðnuafurðum undanskildum, þá hafa útflutningsverðmæti sjávarafurða aukist um rúmlega 4%. Þetta kemur fram í Radarnum – fréttabréfi SFS.
Sé litið á einstaka tegundahópa, þá er einungis aukning í útflutningsverðmæti botnfiskafurða á ofangreindu tímabili. Þar nemur aukningin rúmlega 6% á föstu gengi á milli ára. Útflutningsverðmæti allra annarra tegundahópa dregst saman. Það gefur auga leið að samdrátturinn er mestur í útflutningsverðmæti uppsjávarafurða, eða um 17% á föstu gengi. Að loðnu undanskilinni er hins vegar ágætis aukning í útflutningsverðmæti uppsjávarafurða, eða sem nemur tæp 9% á sama kvarða. Útflutningsverðmæti flatfiskafurða hefur svo dregist saman um tæp 6% á milli ára og skelfiskafurða, sem er að langstærstum hluta rækja, um 12%.
Þorskur og ýsa skýra langstærstan hluta þeirrar aukningar sem orðið hefur í útflutningsverðmæti botnfiskafurða á árinu. Útflutningsverðmæti þorskafurða er komið í tæpa 119 milljarða króna á fyrstu tíu mánuðum ársins, sem er aukning upp á rúm 4% á föstu gengi frá sama tímabili í fyrra. Mun meiri aukning hefur orðið í útflutningsverðmæti ýsuafurða, sem er komið í tæpa 28 milljarða króna á fyrstu tíu mánuðunum. Aukningin á milli ára nemur um 22% á föstu gengi. Á hinn bóginn er ríflega 7% samdráttur í útflutningsverðmæti karfa á sama tímabili og um 2% í ufsa.
Aukinn ýsukvóti hefur vissulega mikið að segja í ofangreindri aukningu á útflutningsverðmæti ýsuafurða, en það er þó annað og meira sem hangir á spýtunni í þeim efnum. Í því samhengi er áhugavert að rýna í útflutningsverðmæti ýsu eftir bæði afurðaflokkum og viðskiptalöndum, en þar hefur orðið talsverð breyting undanfarin misseri.
Á myndinni hér fyrir neðan má sjá útflutningsverðmæti ýsu flokkað eftir afurðaflokkum á fyrstu tíu mánuðum hvers árs frá árinu 2019. Þar má sjá að töluverð breyting hefur orðið í samsetningu ýsuafurða í útflutningi þar sem ferskar afurðir hafa orðið stöðugt fyrirferðarmeiri með hverju árinu. Slík afurðavinnsla krefst hátæknibúnaðar en með henni fást mun meiri verðmæti fyrir hvert kíló sem dregið er úr sjó, enda eru ferskar afurðir mun verðmætari en aðrar afurðir.
Á fyrstu tíu mánuðum ársins er útflutningsverðmæti ferskra ýsuflaka komið í rúma 10 milljarða króna, en það hefur aldrei verið meira á tilgreindu tímabili. Miðað við sama tímabil í fyrra er um 22% aukningu að ræða á föstu gengi. Vissulega hefur dágóð aukning einnig orðið á útflutningsverðmæti annarra afurðaflokka á milli ára. Þannig hefur útflutningsverðmæti frystra flaka aukist um 12% og verðmæti sjófrystra flaka um 40%. En þegar litið er aftur til ársins 2019, þá hefur langmesta aukningin orðið í útflutningsverðmæti ferskra afurða, en þau hafa ríflega tvöfaldast á tímabilinu. Þetta endurspeglar vel þá staðreynd að sjávarútvegsfyrirtæki eru stöðugt að leita leiða til þess að auka verðmætasköpun, eins og með þróun verðmætari afurða úr ýsu.
Samfara breytingum í vinnslu verða oft talsverðar breytingar á útflutningi til einstakra viðskiptalanda. Slíkt er upp á teningnum nú. Hinir hefðbundu markaðir fyrir ýsu hafa verið Bretland og Bandaríkin, en það eru einmitt stærstu viðskiptalönd Íslendinga með ýsuafurðir eins og blasir við á myndinni hér fyrir neðan. Þar má jafnframt sjá að þessir tveir markaðir eru afar ólíkir þar sem fryst ýsuflök eru fyrirferðarmest í útflutningi til Bretlands en fersk ýsuflök til Bandaríkjanna.
Þriðja stærsta viðskiptalandið er Frakkland, en sá markaður hefur verið í talsverðri sókn undanfarin misseri. Á fyrstu tíu mánuðum ársins hefur útflutningsverðmæti ýsuafurða til Frakklands aukist um 45% frá sama tímabili í fyrra. Verðmætin eru jafnframt nú þegar orðin talsvert meiri en þau hafa nokkru sinni verið á heilu ári. Það kemur heim og saman við þá aukningu sem orðið hefur á ferskfiskvinnslu á ýsu. Þess má geta að ýsa er ekki mjög vel þekkt í Frakklandi, líkt og í Bretlandi og Bandaríkjunum. Í þeim efnum þarf að byggja upp markaðinn og þar skiptir markaðssetning sköpum, samhliða öruggri afhendingu og miklum gæðum. Frakkar eru enda miklir matgæðingar sem leggja ríka áherslu á gæði, gott hráefni og ferskleika.
Ofangreind þróun á ýsu er ágætt dæmi um að fiskur úr sjó er ekki stöðluð vara þannig að verðmætin komi af sjálfu sér eftir að hann hefur verið veiddur. Það þarf að gera úr honum verðmæti og selja á mörkuðum erlendis þar sem hörð samkeppni ríkir. Í þeim efnum er hægt að fara ýmsar leiðir sem kemur ágætlega í ljós þegar litið er á hvernig málum er háttað hjá Norðmönnum, sem er einn helsti keppinautar Íslendinga á markaði fyrir sjávarafurðir. En nánar verður fjallað um það á Radarnum síðar.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst