Stækkun á hafnarsvæði, Brimneskantur og viðlegukantur undir Kleifum var tekið fyrir á fundi umhverfis- og skipulagsráðs á mánudaginn sl.
Þar var lagt fram að lokinni auglýsingar á skipulagslýsingu vegna breytingar á aðalskipulagi Vestmannaeyja 2015-2035 vegna nýrra landnotkunareita fyrir hafnarsvæði Vestmannaeyjahafnar.
Alls bárust 39 umsagnir vegna málsins. 7 frá opinberum umsagnaraðilum, 10 frá fyrirtækjum og félögum og 22 frá íbúum.
Benda á að um sé að ræða óafturkræf neikvæð áhrif á nútímahraun sem nýtur verndar
Landsnet bendir á að verði að byggingu stórskipakants við Brimnes þurfi að huga að rekstri rafstrengja sem þar eru og munu koma. Færsla á háspennustrengjum sé dýr og flókin aðgerð og staðsetning stórskipahafnar svo nálægt landtöku strengjanna geti ógnað rekstraröryggi.
Náttúrufræðistofnun Íslands og Umhverfisstofnun benda á að um sé að ræða óafturkræf neikvæð áhrif á nútímahraun sem nýtur verndar og rask á svæði sem tilheyrir náttúruminjaskrá.
Áhyggjur af röskun við Löngu og áhrif á ásýnd innsiglingar og upplifun ferðamanna við komu til Eyja vegna iðnaðarsvæðis
Meðal viðfangsefna umsagna íbúa var ánægja með og ítrekun á mikilvægi framkvæmda við höfnina og ábendingar um útfærslu. Einnig komu fram áhyggjur af röskun við Löngu og áhrif á ásýnd innsiglingar og upplifun ferðamanna við komu til Vestmannaeyja vegna iðnaðarsvæðis við Brimneskant.
Á 303. fundi framkvæmda- og hafnarráðs er óskað eftir að við áframhaldandi gerð skipulagsáætlana sé aðalskipulagi við Löngu haldið óbreyttu fyrir utan styttingu Hörgaeyrargarðs.
Að unnin verði tillaga sem geri ráð fyrir stækkun hafnarsvæðis H-2 til austurs
Í afgreiðslu ráðsins segir að ráðið þakki bréfriturum og íbúum sem hafa látið sig málið varða. Ráðið tekur undir tillögu frá 303. fundi framkvæmda- og hafnarráðs um að halda núverandi aðalskipulagi við Löngu óbreyttu að undanskilinni styttingu Hörgaeyrargarðs.
Lagt er til að unnin verði tillaga á vinnslustigi að breyttu aðalskipulagi Vestmannaeyja 2015-2035 sem geri ráð fyrir stækkun hafnarsvæðis H-2 til austurs. Ráðið fól starfsfólki sviðsins framgang málsins.
Hér má lesa allar umsagnirnar sem bárust bæjaryfirvöldum vegna málsins.
https://eyjar.net/staekkun-hafnarinnar/
https://eyjar.net/haett-vid-hafnarkant-vid-longu/
https://eyjar.net/natturuperlur-eru-gridarlegt-verdmaeti/
https://eyjar.net/thurfum-ad-hugsa-ut-fyrir-boxid/
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst