Í dag 26. ágúst eru liðin 70 ár frá því að Eyjamaðurinn Torfi Bryngeirsson varð Evrópumeistari í langstökki sem enn í dag þykir eitt fræknasta afrek íslensks íþróttamanns.
Evrópumótið í frjálsum íþróttum 1950 fór fram á Heysel leikvanginum í Brüssel, höfuðborg Belgíu dagana 23. – 27. Ágúst. Þar kom saman allt besta fjálsíþróttafólk Evrópu. Á meðal 10 íslenskra keppenda var Eyjamaðurinn Torfi Bryngeirsson og keppti hann bæði í stangastökki, sem var hans aðalgrein, og langstökki. Gerði hann sér lítið fyrir og komst í úrslit í báðum greinum. Þá var úr vöndu að velja því ekki var gert ráð fyrir því að nokkur maður hefði þvílíkt vald á báðum þessum greinum og fóru úrslit beggja greina fram á sama tíma.
„Rétt fyrir mótið í Brüssel fór ég 4,25 á stöng á meistaramóti í Reykjavík, en það var þá nýtt met. Nú, þetta leit kannski ekki illa út, en einn þátttakendanna var Svíinn Ragnar Lundberg og hann hafði rétt fyrr stokkið 4,42 á stöng. Eftir miklar bollaleggingar milli mín, þjálfara og fararstjóra, var svo tekin sú ákvörðun, að ég skyldi sleppa stönginni en keppa í langstökkinu. Og nú rann upp sá mikli dagur,“ sagði Torfi í viðtali í 50 ára afmælisriti Íþróttafélagsins Þórs árið 1963. „Mótið fór fram á Heisel-leikvanginum í Brüssel. Áhorfendur voru geysimargir, líklega 80 – 90 þúsund. Við vorum 10 íslensku keppendurnir og víst fámennastir allra. Í undankeppninni stökk ég 7,20 m, en í aðalkeppninni 7,32 í fimmtu atrennu og enginn lengra, en í sjöttu atrennu 7,30. Þetta var á móti tveggja stiga vindi. Ég var þar með Evrópumeistari í langstökki, en Gunnar Huseby í kúluvarpi, 16,74 m. Valið hafði reynzt rétt, sem betur fór. Ég hefði líklega orðið annar, þriðji eða fjórði í stangarstökkinu. Örn Clausen var annar í tugþrautinni. Ísland varð 8. í röðinni af 24 þjóðum með 28 stig og tvo Evrópumeistara.ׅ“
Ótrúlegt afrek hjá þessum íslensku afreksmönnum, sem enn hefur ekki verið leikið eftir, og var vel tekið á móti þeim við komuna heim að loknu móti. „Rétt er það, við vorum sjálfir hissa á því, hvað mikið var um að vera. Fjöldi fólks var á flugvellinum og fagnaði okkur innilega. Þá var þar kominn forseti okkar, fyrsti íslenzki forsetinn, Sveinn Björnsson, Björn Ólafsson ráðherra og Gunnar Thoroddsen þáverandi borgarstjóri. Forsetinn og Gunnar borgarstjóri héldu ræður okkur til heiðurs,“ sagði Torfi í sama viðtali.
Þetta skemmtilega viðtal við Torfa var endurbirt í blaði Eyjafrétta miðvikudaginn 22. apríl 2015 þegar Torfi og Gunnar A. Huseby voru teknir inn í Heiðurshöll ÍSÍ og má nálgast það hér.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst