Rafkyntar fjarvarmaveitur, sem nota rafmagn eða eldsneyti til að hita vatn til sölu um dreifikerfi veitunnar, eru reknar af Orkubúi Vestfjarða, RARIK á Seyðisfirði og HS Veitum í Vestmannaeyjum.
Birgir Þórarinsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins lagði fram fyrirspurn í byrjun sumars um húshitunarkostnað, gjaldskrá veitufyrirtækja og breytingu á gjaldskrá hjá rafkyntum veitum til umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.
Í svari ráðuneytisins er miðað við ársnotkun 140 fm húsnæðis sem notar 32.300 kWst á ári. Hækkun orkuverðs vegna heitt vatns hefur hækkað umtalsvert meira í Vestmannaeyjum en annars staðar. Sú hækkun hefur að mestu leyti verið frá 2023. Bæjarbúar höfðu væntingar um lækkun orkukostnaðar með tilkomu varmadælustöðvarinnar sem kom í rekstur árið 2018. Raunin hefur ekki verið sú.
Fram kom við vígslu stöðvarinnar að tilgangurinn með framkvæmdinni hafi verið að leita að hagkvæmasta úrræðinu til upphitunar húsnæðis í Eyjum til framtíðar litið og um leið að treysta orkuöflunina.
„Eftir stendur að fyrirtæki sem hefur einkaleyfi á grunnþjónustu og skilar góðum hagnaði á hverju ári skuli vera með dýrasta orkuverðið og það þurfi sérstaklega aukna niðurgreiðslu frá ríkissjóði“
Birgir Þórarinsson ræddi málið undir liðnum „störf þingins“ á þingfundi í dag. Þar sagði hann m.a. að orkuverð vegna húshitunar hafi hækkað umtalsvert meira í Vestmannaeyjum en annars staðar. „
Hækkunin nemur 80% í Vestmannaeyjum á fimm árum. Á Seyðisfirði er hækkunin rétt um 40% og á Vestfjörðum er hækkun um 20%. Þessi mikla hækkun í Eyjum hefur að mestu leyti verið frá árinu 2023 og hún er umfram vísitölu neysluverðs.
Eyjamenn höfðu væntingar um lækkun orkukostnaðar með tilkomu varmadælustöðvarinnar sem komst í rekstur árið 2018 en raunin hefur ekki verið sú. HS Veitur segja hækkunina í Eyjum til komna vegna mikils tapreksturs, en tapinu er greinilega velt á íbúana. Fjárhagsstaða fyrirtækisins er hins vegar sterk og horfur góðar, eins og segir í ársreikningi þess frá árinu 2023, en fyrirtækið hefur skilað rúmum 6 milljörðum kr. í hagnað síðastliðin sex ár.
Nýverið gerðu HS Veitur [Innsk. HS Orka] nýjan hagstæðan orkusamning við Landsvirkjun vegna Vestmannaeyja en Eyjafréttir, fréttamiðillinn í Vestmannaeyjum, hafði eftir fyrirtækinu að það gæfi ekki tilefni til lækkunar á húshitunarkostnaði. Ráðherra orkumála hefur ákveðið frá og með 1. október að stórauka niðurgreiðslur á orkuverði til HS Veitna í Vestmannaeyjum. Ég fagna því að sjálfsögðu að ráðherra skuli stíga inn í málið og að orkuverð muni lækka eitthvað í Eyjum, en eftir stendur að fyrirtæki sem hefur einkaleyfi á grunnþjónustu og skilar góðum hagnaði á hverju ári skuli vera með dýrasta orkuverðið og það þurfi sérstaklega aukna niðurgreiðslu frá ríkissjóði til að hlaupa undir bagga með íbúunum.“ sagði Birgir á þingfundi í dag.
Birgir segir í samtali við Eyjafréttir að svar ráðherra sé ítarlegt og ýmislegt gagnlegt komi þar fram.
„Ég spurði meðal annars að því hvaða forsendur og gögn lágu til grundvallar hverri breytingu á gjaldskrá í Vestmannaeyjum. HS Veitur vísa aðallega til þess að það hafi verið verulegur taprekstur og ein af skýringunum sem nefnd er, er fjármagnskostnaður vegna varmadælustöðvarinnar. Maður spyr sig eiga íbúarnir að borga hann? Eiga ekki HS Veitur stöðina? HS veitur fengu nú góðan styrk á sínum tíma frá ríkissjóði til framkvæmdanna.
Það blasir við að tapinu hefur verið velt yfir á íbúana á sama tíma og fjárhagsstaða fyrirtækisins er sterk og horfur góðar eins og segir í ársreikningi 2023, en fyrirtækið hefur skilað rúmum 6 milljörðum í hagnað sl. 6 ár.”
„Nýverið gerðu HS veitur nýjan hagstæðan orkusamning við Landsvirkjun vegna Vestmannaeyja. Samningurinn mun meðal annars draga verulega úr olíunotkun. Ég sá í Eyjafréttum að haft var eftir fyrirtækinu að samningurinn gefi hins vegar ekki tilefni til lækkunar á húshitunarkostnaði, þrátt fyrir að þetta muni draga verulega úr olíukeyrslu. Í svarinu er einmitt nefnt að kostnaður vegna olíunotkunar hafi verið mikill. Hann ætti þá væntanlega að vera úr sögunni og það hlýtur þá að vera tilefni til lækkunar.
Orkumálaráðherra hefur ákveðið frá og með 1. okt að stórauka niðurgreiðslur á orkuverði til HS veitna í Vestmannaeyjum. Ég fagna því að sjálfsögðu að ráðherra skuli stíga inn í málið og orkuverðið muni þá lækka eitthvað í Eyjum, ekki veitir af. En eftir stendur að fyrirtæki sem hefur einkaleyfi á grunnþjónustu og skilar góðum hagnaði á hverju ári, skuli vera með dýrasta orkuverðið, og að það þurfi sérstaka auka niðurgreiðslu frá ríkissjóði til að hlaupa undir bagga með íbúunum.“ segir hann.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst