Opnað hefur verið fyrir umsóknir í Uppbyggingarsjóð Suðurlands, vorúthlutun 2023. Sjóðurinn heyrir undir SASS og er hlutverk hans að veita styrki til atvinnuþróunar og nýsköpunar og menningar á Suðurlandi. Í flokki atvinnuþróunar og nýsköpunar er horft til verkefna sem geta skapað atvinnu eða aukið framleiðslu. „Þetta eru verkefni sem eiga kost á stuðningi ásamt nýsköpunarverkefnum sem efla fjölbreytileika atvinnulífs. Í flokki menningar er markmið að verkefni efli menningarstarfsemi og listsköpun á Suðurlandi,“ segir á heimasíðu SASS.
„Ég hvet fólk í Vestmannaeyjum til að skoða þennan möguleika. Þið sem eruð með hugmyndir í kollinum, endilega hafið samband og við förum yfir möguleikana,“ segir Hörður Baldvinsson, framkvæmdastjóri Þekkingarseturs Vestmannaeyja og tengiliður við sjóðinn. „Hingað hafa komið styrkir í mjög fjölbreytt verkefni og er sjávarútvegur ekki undanskilinn. Vestmannaeyingar eru í eðli sínu frumkvöðlar og hefur Uppbyggingarsjóðurinn verið stökkpallur fyrir margan Eyjamanninn til frekari sóknar.“
Undir þetta tekur Hallgrímur Steinsson, framkvæmdastjóri Löngu ehf. sem einbeitir sér að þurrkuðum fiskafurðum og hefur farið inn á nýjar brautir, t.d. með styrk frá Uppbyggingarsjóðnum. „Stuðningur SASS hefur verið mjög mikilvægur við að skoða ný tækifæri í sjávarútvegi hér í Vestmannaeyjum á undanförnum árum,“ segir Hallgrímur.
„Það eru ennþá mörg tækifæri til uppbyggingar og nýsköpunar og er oft mjög mikilvægt í upphafi verkefna að fá stuðning til að fylgja verkefnum úr hlaði. Við hjá Löngu erum þakklát fyrir stuðning SASS sem við höfum fengið gegnum tíðina í okkar verkefnum,“ bætir Hallgrímur við.
Hallgrímur er einn eigenda, ILFS sem hyggur á landeldi á laxi í Vestmanneyjum, alls 10.000 tonn á ári. Fyrsta skóflustungan var tekin í Viðlagafjöru í dag.
Grein úr Eyjafréttum.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst