„Þetta var frábær dagur í Eyjum. Við áttum mjög gagnlega vinnufundi á sjúkrahúsinu og í Hraunbúðum og við Íris bæjarstjóri tókum fundinn okkar bara úti í góða veðrinu. Samtalið um heilbrigðismálin á Vigtinni bakhúsi var gott og nú þurfum við jafnaðarmenn að standa undir væntingum.
Við ætlum að kynna útspil í heilbrigðismálum næsta haust sem byggir meðal annars á þessari vinnu. Þar á eftir tökum við fyrir atvinnu og samgöngur og þá komum við aftur til Eyja. Ég vil bara þakka fyrir mig í bili og óska Eyjamönnum til hamingju með Íslandsmeistaratitilinn í handbolta!“ sagði Kristrún Frostdóttir, formaður Samfylkingarinnar eftir fundinn í Vigtinni á miðvikudaginn.
Fundurinn var ágætlega sóttur en þar bauð Kristrún upp á samræður um heilbrigðismál í Vestmannaeyjum og finnst sennilega flestum í Eyjum að af nógu sé að taka.
„Þegar sjúkraflugið var allt flutt á Akureyri var sagt að það væri allt í lagi vegna þess að það væri skurðstofa í Vestmannaeyjum. En svo var henni lokað nokkrum árum síðar. Við búum við mikið óöryggi hér að hafa ekki sama aðgengi að heilbrigðisþjónustu. Sem er samt bundið í lög að eigi að vera jöfn,“ sagði einn fundargesta.
Annar tók í svipaðan streng: „Það sem snýr að bara venjulegu fólki hérna á vinnumarkaði er ekki síst kostnaðurinn sem við berum umfram þá sem eru til dæmis í Reykjavík eða á Akureyri, sem þurfa bara að hlaupa yfir götuna eftir sinni heilbrigðisþjónustu. Við erum að borga sömu skatta og allt það. En við erum ekki að fá sömu þjónustu.“
Mynd af fundinum.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst