Nú liggja fyrir niðurstöður í þróunarverkefninu, Kveikjum neistann um lestrarfærni barna í fyrsta og öðrum bekk í Grunnskóla Vestmannaeyja í lok námsársins 2023. Þær sýna að aðferðafræðin er að sanna sig annað árið í röð. Niðurstöður eru að 98% barnanna í fyrsta bekk geta nú lesið orð sem er mjög góður grunnur, segir á Fésbókarsíðu Vísinda og menntunar.
Eitt af markmiðum verkefnisins var að 80% nemenda teldust læsir við lok annars bekkjar og það náðist. Niðurstöður í öðrum bekk sýndu að 83 barnanna eru læs.
„Til þess að meta það komu lestrarfræðingar, kennarar og fleiri að gerð prófs sem nefnist LÆS sem felst í lestri á aldurssvarandi texta og því að geta svarað spurningum honum tengdum. LÆS kom vel út úr áreiðanleikamati og hefur nú verið prófað af rúmlega 400 nemendum víðsvegar um landið til að leggja mat á prófið sjálft.
Við óskum börnunum og foreldrum þeirra til hamingju með þennan glæsilega árangur. Við óskum Vestmannaeyjabæ til hamingju með GRV og þann glæsilega árangur sem kennarar hafa náð,“ segir á Fésbókarsíðunnu.
Kveikjum neistann rannsóknar og þróunarverkefnið í Vestmannaeyjum er byggt á sterkum rannsóknum og kenningum virtra fræðimanna um nám og færniþróun. Það er rannsóknarsetur um menntun og hugarfar við HÍ með aðkomu að SA sem leiðir verkefnið en þar er prófessor Hermundur Sigmundsson ábyrgðarmaður.
Mynd: Nemendur á GRV.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst