Leikskólar í Eyjum innleiddu í vetur þróunarverkefnið Snemmtæk íhlutun-mál og læsi. Haldin var uppskeruhátíð til að fagna afrakstri vetrarins.
Vestmannaeyjabær og Menntamálastofnun skrifuðu þann 22. ágúst sl. undir samstarfssamning um innleiðingu þróunarverkefnisins Snemmtæk íhlutun-mál og læsi. Innleiðing verkefnisins í leikskóla sveitarfélagsins stóð yfir allan sl. vetur og unnu kennarar, leiðbeinendur og stjórnendur leikskólanna ötullega að henni undir leiðsögn Halldóru G. Helgadóttur, verkefnastýru og Ásthildi Bj. Snorradóttur sem þróaði verkefnið. Verkefnið er með sérstaka áherslu á málþroska barna og í innleiðingunni fólst, m.a. að skoða hvað skólarnir væru að gera vel og hvað væri hægt að gera betur til að styðja sem best við börn þegar kemur að markvissri snemmtækri íhlutun í málþroska. Hver leikskóli vann handbók sem myndar ramma og leiðbeiningar um allt það starf sem lýtur að snemmtækri íhlutun í málþroska.
Þriðjudaginn 20. júní var innleiðingu verkefnisins formlega lokið og uppskeruhátíð haldin í Visku. Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri, opnaði hátíðina og í framhaldi héldu þær Ásthildur Bj. Snorradóttir og Halldóra G. Helgadóttir stutta tölu um mikilvægi snemmtækrar íhlutunar í málþroska og þátttöku alls starfsfólks leikskóla í því starfi. Þá kynntu fulltrúar leikskólanna efni úr handbókunum sem unnar voru og gafst gestum tækifæri á að skoða þær í kjölfarið. Því næst tók Katrín Ósk Þráinsdóttir, verkefnastjóri hjá Menntamálastofnun, til máls þar sem hún hrósaði leikskólunum fyrir frábæra og faglega vinnu. Þá þakkaði hún Ásthildi og Halldóru fyrir þeirra framlag og skólaskrifstofu fyrir utanumhald fyrir hönd Vestmannaeyjabæjar. Sverrir Óskarsson, sviðsstjóri matssviðs Menntamálstofnunar, færði leikskólunum bókagjafir fyrir hönd Menntamálastofnunar og þá flutti Drífa Gunnarsdóttir, fræðslufulltrúi, nokkur lokaorð.
Vestmannaeyjabær þakkar starfsfólki leikskólanna fyrir frábæra vinnu við þróunarverkefnið. Afrakstur vetrarins og áframhaldandi vinna í kjölfar innleiðingar kemur til með að styrkja öll börn þar sem mælingar, þjálfun og eftirfylgni verða markvissari. Þá styrkist starfsfólk í starfi þar sem markmið, verkferlar og efniðviður hvers leikskóla er skýrari. Árangurinn sem af verkefninu hlýst verður ekki bundinn við leikskólana, hann mun skila sér upp allt skólakerfið og lengra þegar fram líða stundir.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst