Nú liggur fyrir ráðherraskipan Sjálfstæðisflokksins við myndun ríkisstjórnar í kjölfar Alþingiskosninga. Sjálfstæðisflokkurinn vann mikinn sigur í Suðurkjördæmi í síðustu kosningum til Alþingis og fékk 31.5% atkvæða í kjördæminu og 4 þingmenn kjörna.
Það var aðeins í Suðvesturkjördæmi sem að Sjálfstæðisflokkurinn fékk hærra hlutfall atkvæða en í öðrum kjördæmum landsins fékk Sjálfstæðisflokkurinn lægra hlutfall og færri þingmenn kjörna.
Miðað við framangreint hefði því verið talið líklegt að Suðurkjördæmi fengi ráðherraembætti í sinn hlut en svo var ekki í þetta skiptið. Ráðherrar Sjálfstæðisflokksins eru 6 talsins og koma 2 þeirra úr Suðvesturkjördæmi, 2 úr Reykjavíkurkjördæmum, 1 úr Norðvestur og 1 úr Norðaustur. Þá fékk 4 þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi embætti forseta Alþingis í sinn hlut.
Á síðasta kjörtímabili var Ragnheiður Elín Árnadóttir 1. þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi. Hún var ráðherra flokksins í ríkisstjórn frá 2013-2017. Líklega er hægt að segja að hún hafi sótt sitt sterkast fylgi til Reykjaness. Sjálfstæðisflokkurinn var þar á undan í ríkisstjórn 2007-2009. Þá var 1. þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi Árni M. Mathiesen. Hann var fjármálaráðherra. Líklega sótti hann fylgi sitt jafnt yfir Suðurkjördæmi þrátt fyrir búsetu í Suðvesturkjördæmi.
Á undan honum voru þau Árni Johnsen og Drífa Hjartardóttir um skamma hríð 1. þingmenn Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi. Þar á undan var Þorsteinn Pálsson 1. þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi um langa hríð og sótti líklega fylgi sitt jafnt yfir Suðurkjördæmi. Hann var ráðherra Sjálfstæðisflokksins um lengri tíma.
En var það eins sjálfsagt og margir halda að 1., já eða 2. þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi yrðu nú ráðherrar. Báðir þessir þingmenn, Páll Magnússon og Ásmundur Friðriksson sækja að talsverðu leyti fylgi sitt til Vestmannaeyja og báðir eru þeir fæddir þar og uppaldir. En þrátt fyrir að Vestmannaeyjar hafi löngum verið talið sterkasta vígi Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi þá sýnir sagan það að Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki treyst sjálfstæðismanni úr Vestmannaeyjum til ráðherraembætta. Í því sambandi er einfaldast að vísa til starfa Árna Johnsen og Guðjóns Hjörleifssonar sem þingmanna flokksins. Þeir voru hins vegar ekki 1. þingmenn kjördæmisins nema Árni um mjög skamma hríð.
Nú horfir öðruvísi við eins og hér að framan er getið. Engu að síður þá virðist einfaldlega það sama uppá teningunum. Þingmanni Sjálfstæðisflokksins sem sækir að mestu fylgi sitt til Vestmannaeyja, er ekki treyst fyrir ráðherraembætti í ríkisstjórn, jafnvel þótt um 1. og 2. þingmann Sjálfstæðisflokksins sé að ræða. Spurningunni í fyrirsögn má því líklega svara á þann veg að niðurstaðan var gefin fyrirfram en ekki beri að líta á hana sem sérstaka niðurlægingu fyrir Suðurkjördæmi.
Þetta skiptir þó líklega engu máli fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Hið sauðtrygga fylgi flokksins í Vestmannaeyjum er ekkert á förum. Engu skiptir þar þótt Eyjamönnum sé ítrekað fyrir litlu treyst. Kannski felast skilaboð í niðurstöðunni. En ef svo er þá skiptir það heldur engu máli. Við Eyjamenn, munum samt mæta og klappa sem endranær. Það breytist ekkert enda en gengið út frá því.
P.s. Greinaskrifari er fæddur á seinni hluta síðustu aldar og vann heimildavinnu greinilega ekki nógu vel en var bent á það að Jóhann Þ. Jósefsson f. 1886 og einn af stofnendum Íhaldsflokksins 1924 og Sjálfstæðisflokksins 1929 var fjármála- og atvinnumálaráðherra í ríkisstjórn Stefáns Jóhanns Stefánssonar 1947-49 og atvinnumálaráðherra í ríkisstjórn Ólafs Thors 1950. Jóhann var borinn og barnfæddur Eyjamaður, þannig að fordæmi er fyrir því að þingmanni úr Vestmannaeyjum sé treyst til ráðherraembættis innan Sjálfstæðisflokksins. Frekari ábendingar eru vel þegnar.
Tryggvi Már Sæmundsson
Jóhann Þ. Jósefsson
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst