Fjárlög voru samþykkt á alþingi í dag. Í breytingartillögum meirihluta fjárlaganefndar kemur skýrt fram að margar af þeim niðurskurðaraðgerðum, sem fyrirhugaðar voru, hafa verið felldar burt. Þannig hækkar framlag til barnabóta og vaxtabóta, en lækkar ekki eins og fyrri tillögur fjárlaganefndar gerðu ráð fyrir. Jöfnunarsjóður sveitarfélaga hækkar til að koma til móts við hækkun tryggingargjalds sem leiðir til hærri launakostnaðar sveitarfélaga. Ýmis úrræði vegna atvinnuleysis, ekki síst ungs fólks, eru stóraukin. Tekjuskattur hækkar engu að síður, virðisaukaskattur verður sá hæsti í heimi og framlag vegna tryggingabóta er mjög skert. Það verður því alls staðar þrengra en áður og á óneitanlega eftir að koma niður á fólki.