Unnið er að því að koma upp varavatnsbóli fyrir Vestmannaeyjar í ljósi flóðahættu vegna jarðhræringa í Eyjafjallajökli. Engar skemmdir hafa orðið á vatnslögn til Eyja en tæknifræðingur hrósar happi yfir því að hún var grafin undir Markarfljót fyrir nokkrum árum. Hitaveita Suðurnesja áformar að hefja framkvæmdir á næstu dögum við gerð varavatnsbóls fyrir neysluvatn til Vestmannaeyja. Tveggja til þriggja daga birgðir af vatni eru í vatnstönkum í Eyjum.