Úrvalsdeildarlið ÍBV í knattspyrnu tók á móti 1. deildarliði HK á malarvellinum í dag. Aðstæður voru vægast sagt hörmulegar, bæði er völlurinn handónýtur auk þess sem blés hressilega í Eyjum í dag og hitastigið var frekar lágt. Ofan á allt saman þurftu leikmenn að glíma við sandrok á vellinum. Engu að síður reyndu leikmenn beggja liða að spila fótbolta við þessar erfiðu aðstæður sem höfðu allt of mikil áhrif á leikinn. Eyjamönnum tókst þó að koma boltanum fimm sinnum í netið án þess að gestirnir næðu að svara.