Það hefur verið líf og fjör í Sundlaug Vestmannaeyja síðustu daga en nýtt og glæsilegt útisvæði hefur verið opið til reynslu undanfarið. Unnið hefur verið að endurbótum á útisvæði sundlaugarinnar og er nú komið upp eitt glæsilegasta sundlaugarsvæði landsins í Eyjum. Allt svæðið er lagt tartanefni og er undirlagið mjúkt, engu líkara en gengið sé á sandi. Á svæðinu eru tveir heitir pottar, stór nuddpottur, fimm vatnsrennibrautir, þar af sérstök trampolínbraut, sem er sú eina sinnar tegundar á landinu.