Eyjamenn unnu í dag annan útileik sinn í röð en liðið hefur nú fengið sjö stig úr fyrstu fjórum leikjum sínum, sem allir hafa verið leiknir á útivelli. ÍBV lagði Hauka að velli 0:3 í dag en liðin léku á Valsvellinum, þar sem Haukar leika sína heimaleiki. Þessi góða byrjun Eyjaliðsins á Íslandsmótinu hefur komið flestum spekingum í opna skjöldu enda sögðu allar spár að ÍBV-liðið myndi enda í tíunda sæti og þá væntanlega vera í fallbaráttunni í sumar. Leikmenn ÍBV hafa nú sýnt það á vellinum að þessar spár voru rangar.