Öllu starfsfólki Eignarhaldsfélagsins Fasteignar hefur verið sagt upp störfum. Á sínum tíma seldi Vestmannaeyjabær Fasteign nokkrar af fasteignum í eigu bæjarins og gerðist um leið einn af eigendum félagsins. Gunnlaugur Grettisson, forseti bæjarstjórnar situr í stjórn félagsins en samkvæmt Viðskiptablaðinu ríkir mikil óvissa um framtíð félagsins þar sem leigutakar hafi ekki getað greitt fulla leigu, eignir hafi verið bókfærðar hærra en raunvirði þeirra og leigutekjur vegna nýbyggingar Háskólans í Reykjavík standi ekki undir þeim framkvæmdakostnaði sem Fasteign lagði út fyrir vegna hennar.