Kvennalið ÍBV endaði tímabilið heldur betur á jákvæðu nótunum. Í síðasta leik mættu þær Val á útivelli í uppgjöri liðanna í 2. og 3. sæti. Eyjastúlkur unnu fyrri leik liðanna eftirminnilega á Hásteinsvelli 1:0 en þegar 63 mínútur voru búnar af leiknum leit allt út fyrir að Valsstúlkur myndu ná að hefna ófaranna í Eyjum enda 4:1 yfir. En leikmenn ÍBV voru á öðru máli, stelpurnar gerðu sér lítið fyrir og jöfnuðu metin 4:4 áður en leikurinn var úti. ÍBV náði því í fjögur stig gegn bikarmeisturunum í sumar og Valsgrýlan því kveðin í kútinn.